Fara í efni
Þór/KA

Útlitið dökknar hjá handboltaliði KA

Gamli KA-maðurinn Ásbjörn Friðriksson og félagar í FH sækja KA-menn í næstu síðustu umferð deildarkeppninnar. Hér er hann kominn framhjá Loga Gautasyni og Einari Birgi Stefánssyni þegar FH vann KA í lokaumferð deildarkeppninnar síðasta vetur í Hafnarfirði. Liðin mættust svo í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og FH hafði betur. Mynd af handbolti.is/J. Long

KA tapaði 31:29 fyrir Stjörnunni í gær í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta í Garðabæ. KA-menn eru því áfram í níunda sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir HK sem er í áttunda sæti, því síðasta sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Þrátt fyrir tapið getur KA enn náð hinu eftirsótta áttunda sæti en til þess þarf liðið að vinna tvo síðustu leikina og HK að tapa tveimur síðustu. Kópavogsliðið er með betri árangur í innbyrðis viðureignum við KA í vetur en HK á eftir tvo erfiða leiki og alls ekki ólíklegt að báðir tapist.

KA-menn ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í næst síðustu umferðinni. Þá koma Íslandsmeistarar FH í heimsókn í KA-heimilið, miðvikudaginn 19. mars og þá er að duga eða drepast fyrir KA-strákana; þeir verða sem sagt að vinna til að eygja möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Meistarar FH eru í efsta sæti deildarinnar fyrir tvær síðustu umferðirnar, einu stigi á undan Val.

Tölfræðilega er KA heldur ekki enn sloppið úr fallhættu. Tvö neðstu liðin falla reyndar verður að teljast afar ólíklegt að bæði ÍR og Grótta komist upp fyrir KA.

Stjarnan hafði forystu allan fyrri hálfleikinn í gær, komst mest fimm mörkum yfir, KA minnkaði niður muninn niður í tvö mörk seint í hálfleiknum en munurinn var þrjú mörk að honum loknum – 15:12.

KA gerði tvö fyrstu mörk seinni hálfeiks, staðan þá 15:14, og Ott Varik jafnaði 19:19 þegar átta mín. voru liðnar. Stjarnan komst yfir á ný og hafði tveggja til þriggja marka forskot allt þar til tvær mínútur og hálfri lifðu leiks að KA minnkaði muninn í eitt mark, 30:29. Nær komust KA-strákarnir hins vegar ekki og Stjarnan gerði síðasta markið.

Mörk Stjörnunnar: Hans Jörgen Ólafsson 9, Benedikt Marinó Herdísarson 7, Ísak Logi Einarsson 5, Pétur Árni Hauksson 4, Jóel Bernburg, 3, Jóhannes Bjørgvin 3.

Varin skot: Adam Thorstensen 11 (29,7%)

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 9 (6 víti), Dagur Árni Heimisson 8, Ott Varik 3, Einar Birgir Ólafsson 3, Jens Bragi Bergþórsson 2, Patrekur Stefánsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 1, Logi Gautason 1.

Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 5 (22,7%), Bruno Bernat 1 (7,1%)

Öll tölfræðin

Staðan í neðri hluta deildarinnar er þessi, og sjá má hvaða leiki liðin eiga eftir:

HK í 8. sæti með 16 stig

  • HK – Valur
  • ÍBV – HK

KA er í 9. sæti með 13 stig

  • KA – FH
  • Fjölnir - KA

ÍR er í 10. sæti með 11 stig

  • ÍR – Stjarnan
  • FH - ÍR

Grótta er í 11. sæti með 10 stig

  • Haukar – Grótta
  • Grótta - Afturelding

Fjölnir er í 12. sæti með 8 stig

  • Afturelding – Fjölnir
  • Fjölnir – KA