Gullblakarar KA eru hetjur helgarinnar

Blakmeistarar áttu sviðið í KA-heimilinu í dag og skyldi engan undra. Þar var haldin samkoma í tilefni glæsilegs árangurs blakliða félagsins í gær: Meistaraflokkar karla og kvenna urðu þá bikarmeistarar eins og Akureyri.net greindi frá, og til að kóróna frábæra helgi urðu þrír yngri flokkar KA einnig bikarmeistarar, U14 og U16 kvenna og U16 karla.
KA vann Þrótt 3:0 í úrslitaleik karla og í kvennaflokki vann KA lið HK 3:2.
KA er efst á Íslandsmóti karla og Þróttur er í öðru sæti. Ekki munar miklu á liðunum og Gísli Marteinn Baldvinsson, varafyrirliði KA, sagði Akureyri.net í dag að KA-strákarnir hefðu átt í miklum vandræðum með Þróttara í deildinni í vetur og fyrir úrslitaleikinn jafnvel talið mótherjana sigurstranglegri. „Við vorum ákveðnir í að sýna strax í byrjun að við værum ekki mættir til að tapa auðveldlega heldur berjast þar til síðasti bolti dytti í gólfið.“
Ekki þarf að orðlengja að það gerðu þeir og unnu glæsilegan sigur, með baráttu og gleði að leiðarljósi.
Kvennalið KA er mun betra en HK skv. stöðutöflu Unbrokendeildar Íslandsmótsins og KA-stelpurnar unnu fyrstu tvær hrinurnar. Þrjár þarf til að vinna leikinn, útlitið því sannarlega gott en HK kom á óvart og vann tvær næstu hrinur. Því þurfti að grípa til þeirrar fimmtu, oddahrinu, og með sigri í henni tryggðu KA-konur sér bikarinn.
„Það er eiginlega skemmtilegra að vinna svona langa leiki!“ sagði Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, aðalfyrirliði KA við Akureyri.net í dag, spurð um úrslitaleikinn í gær. Eftir á að hyggja, og fyrst svona fór, sé óhætt að segja það!
Nánar á morgun