Fara í efni
Þór

Undanúrslitin á morgun – Rútuferð suður

Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs, berst um boltann við Danielle Rodriguez, einn besta leikmann á Íslandi, í leik Þórs og Grindavíkur í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrr í vetur. Mynd af heimasíðu Þórs: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfubolta leikur til undanúrslita í bikarkeppni KKÍ annað kvöld í Laugardalshöllinni gegn Grindvíkingum. Stuðningsmönnum stendur til boða að kaupa sér ferð með rútu frá Akureyri til Reykjavíkur og aftur heim að leik loknum. Lagt verður af stað frá félagsheimili Þórs, Hamri, lagt verður af stað kl. 13.00. Leikurinn hefst klukkan 20.00. 

Stundin í Höllinni verður söguleg; kvennalið Þórs leikur í efstu deild Íslandsmótsins í vetur í fyrsta skipti í 45 ár og hefur ekki náð svona langt í bikarkeppninni síðan 1975 þegar hún var fyrst haldin í kvennaflokki. Þórsarar unnu þá einmitt bikarinn, eins og nefnt var þegar síðasta gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net á laugardaginn var. Sú mynd var af liðinu sem varð Íslandsmeistari 1976 – smellið hér til að sjá hana – en liðið var eins skipað árið áður.

Vonum að stúkan verði rauð og falleg

Heiða Hlín Björnsdóttir er fyrirliði Þórsliðsins og hún er spennt fyrir verkefninu framundan. „Síðustu tímabil hjá okkur hafa verið frábær, alltaf einhver skemmtileg og ný markmið sem við náum. Þetta var eitt af þeim og tilfinningin er frábær, það er út af svona stundum sem maður heldur sér í þessu sporti,“ segir Heiða Hlín í viðtali á heimasíðu Þórs. „Ég hef aldrei spilað í Laugardalshöllinni og ef mér skjátlast ekki hefur engin af okkur gert það, að minnsta kosti ekki í meistaraflokki. Það verður mjög sætt að gera það í fyrsta sinn með uppeldisliðinu mínu,“ segir fyrirliðinn.

„Það er mikill meðbyr með liði Grindavíkur þessa dagana, eins og allir vita. Því er mjög mikilvægt að allir Þórsarar, nær og fjær, geri sér ferð í Laugardalshöllina,“ segir Heiða Hlín og bætir við í léttum dúr: „Ekki nóg með það að allir Grindvíkingar munu mæta með læti, þá eru litir Grindavíkur líka blár og gulur, það eru litir sem okkur Þórsurum líkar illa við. Ég og liðið vonum að stúkan verði rauð og falleg, full af alvöru Norðlendingum!“

  • Rútuferðin kostar 6.000 krónur fram og til baka. Hér er hægt að kaupa miða.
  • Hér er hægt að kaupa miða á leikinn.