Fara í efni
Þór

Tveir gamlir meistarar fylgdust með í Höllinni

María Guðnadóttir, til vinstri, og Þórunn Rafnar í Laugardalshöllinni í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu bikarmeistarar kvenna í körfubolta árið 1975, þegar keppnin var fyrst haldin, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Tvær úr fyrsta bikarmeistaraliðinu mættu á úrslitaleik Þórs og Keflavíkur í Laugardalshöllinni í gær, lykilmennirnir María Guðnadóttir og Þórunn Rafnar. Þær skemmtu sér vel þrátt fyrir að Þórsarar yrðu að sætta sig við tap og kváðust stoltar af árangri liðsins í vetur.

Þór var besta lið landsins um miðjan áttunda áratuginn og varð Íslandsmeistari 1976, ári eftir bikarmeistaratitilinn. María er úr Stykkishólmi og var á þessum tíma við nám í Menntaskólanum á Akureyri, eins og Akureyringurinn Þórunn. Foreldrar hennar, Bergljót Rafnar og Bjarni Rafnar, yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, voru miklir Þórsarar og Bjarni lengi varaformaður Þórs í formannstíð Haraldar Helgasonar.

  • Gamla íþróttamyndin sem Akureyri.net birt nýverið var af Íslandsmeistaraliðinu 1976. Smellið hér til að skoða sjá þá grein.
  • Í aðdraganda úrslitaleiksins birtist skemmtileg upprifjum á heimasíðu Þórs um gamla meistaraliðið. Smellið hér til að lesa.

  • Fyrstu bikarmeistarar kvenna í körfubolta – Þórsliðið vorið 1975. Aftari röð frá vinstri: Steinunn Einarsdóttir, Rósa Þorsteinsdóttir, Ásta Pálmadóttir, Guðrún Hreinsdóttir og Anton Sölvason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: María Guðnadóttir, Þórunn Rafnar, fyrirliði, og Sólveig Gunnarsdóttir. Úrklippa úr Akureyrarblaðinu Íslendingi.