Fara í efni
Þór

Þórsarar töpuðu stórt fyrir Njarðvíkingum

Birkir Heimisson gerði mark Þórs í Njarðvík í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið Þórs fór enga frægðarför til Njarðvíkur í kvöld. Þórsarar mættu þá Njarðvíkingum í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, og steinlágu 5:1 í roki og rigningu. 

Njarðvíkingar eru efstir í deildinni með 13 stig en liðin tvö sem spáð var efstu sætunum hafa ekki farið vel af stað. Afturelding vann loks leik í kvöld og er í áttunda sæti með fimm stig og Þórsarar eru með sex stig, hafa unnið einn leik og gert þrjú jafntefli en tapið í kvöld var það fyrsta í sumar. Öll liðin eiga fimm leiki að baki.

Byrjun Þórsarar var afleit í kvöld. Þeir voru reyndar með boltann fyrstu þrjár mínúturnar og þjörmuðu að heimamönnum en fóru sér að engu óðslega, og þegar boltinn var sendur til baka á Aron Birki markvörð var hann of rólegur í tíðinni; þegar hann spyrnti loks frá markinu sótti Dominik Radic að honum og af framherjanum fór boltinn í netið. Þetta var strax á fjórðu mínútu.

Kaj Leo í Bartalsstovu gerði annað mark Njarðvíkur eftir rúmar 20 mínútur og staðan var 2:0 í hálfleik.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og náðu að jafna eftir rúmlega korter. Birkir Heimisson skoraði þá með föstu skoti úr teignum eftir sendingu Ingimars Kristjánssonar. Gestirnir voru líflegir áfram, hefðu getað jafnað en það voru hins vegar Njarðvíkingar sem gerðu mark á 77. mín. og síðan tvö til viðbótar í blálokin. 

Varnarleikur Þórsliðsins í heild var afleitur í seinni hálfleik og frammistaðan mikil vonbrigði. Liðið ætlar sér stóra hluti í deildinni og verður að leika miklu betur en í kvöld til þess að standa undir væntingum. Vitað mál er að mun meira býr í leikmönnum Þórsliðsins en sést hefur það sem af er sumri en það er ekki nóg að mikið búi í mönnum – það verður að sjást á vellinum. Þórsarar verða að gjöra svo vel að gyrða sig í brók og sýna sitt rétta andlit sem allra fyrst.

Til að kóróna frammistöðuna klúðraði Þór svo víti þegar sex mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Brotið var á Rafael Victor, sem kom til Þórs frá Njarðvík fyrir keppnistímabilið, og hann tók vítið sjálfur. Markvörðurinn kastaði sér til hægri en Rafael skaut framhjá hinni markstönginni.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna