Fara í efni
Þór

Þórsarar semja við Rafael Victor til tveggja ára

Nýr leikmaður Þórs, framherjinn Rafael Alexandre Romao Victor, fagnar eftir að hann skoraði á Þórsvellinum í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnudeild Þórs hefur náð samkomulagi við portúgalska framherjann Rafael Victor um að leika með Þórsliðinu næstu tvö árin. Greint er frá þessu á heimasíðu félagsins.

Rafael, sem er 27 ára, lék fyrst hérlendis með Þrótti í Reykjavík sumarið 2019. Eftir það lék hann í Ísrael og Póllandi en kom til Íslands á ný 2022, lék það sumar með Hetti/Hugin og síðan með liði Njarðvíkur á síðasta keppnistímabili. Hann gerði 13 mörk í 20 leikjum á Íslandsmótinu í sumar, þar af eitt í 3:0 sigri Njarðvíkinga á Þórsvellinum.

Rafel hefur gert alls 43 mörk í 69 leikjum hérlendis, þar af 11 í 19 leikjum í C-deildinni, með Hetti/Hugin, og 25 í 41 leik í B-deildinni, með Þrótti og Njarðvík.

„Ég valdi Þór af því að ég trúi á það verkefni sem þeir eru með í gangi. Ég fann að þeir höfðu virkilega trú á mínum hæfileikum og trúa að ég geti hjálpað þeim að ná markmiðum félagsins. Ég hlakka til að hefja þetta ferðalag,“ er haft eftir framherjanum á heimasíðu Þórs.

Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, segir það mikið ánægjuefni að hafa náð samkomulagi við leikmanninn.

„Síðustu ár hjá Þór hafa verið keyrð áfram á uppbyggingarstefnu og hafa margir ungir leikmenn fengið tækifæri í Þórsliðinu og staðið sig vel. Á því góða starfi hefur verið byggður grunnur að bjartri framtíð og samhliða því að áfram verði spilað á ungum og efnilegum Þórsurum þá teljum við lykilatriði að styrkja leikmannahópinn með auknum gæðum til að skapa samkeppni um hverja leikstöðu og styðja þannig við framþróun liðsins. Velkominn í Þorpið Rafa!“ segir Sveinn Elías á heimasíðu Þórs.