Fara í efni
Þór

Mögnuð stemning á „Sjally Pally“ í pílu

Sigurvegararnir og bresku gestirnir heimskunnu. Frá vinstri: kynnirinn John McDonald, Ingibjörg Magnúsdóttir, Alexander Veigar Þorvaldsson og Russ Bray, dómari og „kallari.“ Myndir: Skapti Hallgrímsson

Alexander Veigar Þorvaldsson og Ingibjörg Magnúsdóttir sigruðu í gærkvöldi á pílukastsmótinu „Sjally Pally“ – Akureyri Open – í troðfullum Sjalla.

Áhugi á pílukasti er orðinn gríðarlegur hér á landi eins og víða um heim og stemningin á þessu fjölmennasta móti landsins var mögnuð. Pílukast er vissulega íþrótt og fólkið í salnum fylgist auðvitað grannt með en er ekki síður mætt á staðinn til að skemmta sér, eins og tíðkast hefur í þessu sögufræga síðustu áratugi.

Alexander Veigar, sem er frá Grindavík, sigraði Þórsarann Matthías Örn Friðriksson í úrslitum og Hafnfirðingurinn Ingibjörg vann Kittu Einarsdóttur frá Keflavík.

Sigurlaunin voru ekki af verri endanum því auk peningaverðlauna hljóta Alexander Veigar og Ingibjörg flug til London, gistingu og miða á heimsmeistaramótið í pílukasti sem fram fer í desember í Alexandra Palace – „Ally Pally“.

Ingibjörg Magnúsdóttir kastar til sigurs í kvennaflokki í gærkvöldi.

Englendingurinn Russ Bray, dómari og „kallari“ sem margir kannst við frá heimsmeistaramótinu í pílukasti í Sjallanum í gærkvöldi.

Alexander Veigar Þorvaldsson – sigurvegari í karlaflokki.

Matthías Örn Friðriksson sem varð í öðru sæti á mótinu annað árið í röð.

Kitta Einarsdóttir sem varð í öðru sæti í kvennaflokki.