Fara í efni
Þór

Þórsarar sækja ÍR-inga heim í Skógarsel

Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari Þórsliðsins stjórnar því gegn ÍR í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Undanúrslit 1. deildar karla í körfubolta hefjast í kvöld þegar Þórsarar sækja ÍR-inga heim í íþróttahúsið Skógarsel í Breiðholti.

Þórsarar slógu Skallagrím frá Borgarnesi út eftir skemmtilega, fimm leikja rimmu en ÍR-ingar eru að minnsta kosti einu númeri stærri en Borgnesingar og því verður fróðlegt að sjá hvar Þórsliðið stendur gagnvart Reykjavíkurliðinu. ÍR vann lið Selfoss í þremur leikjum og hefur því fengið lengri tíma til undirbúnings leiksins í kvöld en Þór.

ÍR-ingar voru í harðri keppni við KR-inga um efsta sæti deildarinnar í vetur og þar með farseðil beint upp í efstu deild. Þeir urðu að gera sér annað sætið að góðu, urðu aðeins einu stigi á eftir gömlu erkifjendunum úr Vesturbænum og fóru því í úrslitakeppni um hitt lausa sætið í Subway deildinni.

Þórsarar urðu í fimmta sæti 1. deildar í vetur. Þeir töpuðu báðum leikjunum við ÍR í vetur, með 11 stiga mun heima og 14 stiga mun í Reykjavík.

Leikurinn í Skógarseli hefst kl. 19.30.

Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast Fjölnir og Sindri. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið.