Fara í efni
Þór

Þórsarar ollu miklum vonbrigðum og töpuðu

Kristófer Kristjánsson á góðum spretti þegar tæpur hálftími var liðinn, rétt áður en hann sendi boltann inn í vítateig á Rafael Victor. Markvörður gestanna var andartaki á undan framherjanum að ná boltanum og skömmu síðar tóku gestirnir forystu. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar ollu miklum vonbrigðum í gær þegar Vestmannaeyingar komu í heimsókn í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, og hurfu síðan á braut með þrjú stig eftir öruggan og sanngjarnan 3:0 sigur.

Gengi Þórs á heimavelli er verulegt áhyggjuefni. Liðið hefur aðeins unnið tvo af sjö heimaleikjum, gert tvö jafntefli og tapað þremur leikjum – þar af tveimur síðustu, fyrir Þrótti og ÍBV.

Þórsarar hafa fengið 8 stig í 7 heimaleikjum en 9 stig í 7 leikjum á útivöllum.

Fyrsti hálftími leiksins í gær var í rólegri kantinum, einskonar skák þjálfara og leikmanna þar sem hvorug sveitin vildi taka áhættu. Svo lifnaði yfir viðureigninni þegar Kristófer Kristjánsson Þórsari tók á rás með boltann og sendi inn í vítatateig á Rafael Victor en Hjörvar markvörður ÍBV náði boltanum augnabliki á undan honum.

Aðeins fáeinum mínútum eftir þetta komust gestirnir yfir þegar Oliver Heiðarsson sendi boltann fyrir markið frá hægri og Sverrir Páll Hjaltested var illa valdaður og skoraði með hörkuskalla. Sverrir Páll fékk dauðafæri nokkrum mínútum síðar en þá sluppu Þórsarar með skrekkinn því ótrúlegt var að hann skyldi ekki hitta markið.

Aðeins voru liðnar fjórar mínútur af seinni hálfleik þegar Oliver Heiðarsson kom ÍBV í 2:0. Alex Freyr Hilmarsson komst allt of auðveldlega framhjá tveimur Þórsurum alveg við endalínu vinstra megin í vítateiginum og renndi boltanum á Oliver sem skoraði af stuttu færi. Þórsarar vildu meina að boltinn hefði verið farinn aftur fyrir en aðstoðardómarinn var ekki á sama máli.

Arnar Ingimar Kristjánsson fékk besta færi Þórs í seinni hálfleik en Hjörvar Eyjamaður varði frá honum og það var svo Sverrir Páll sem gerði þriðja mark gestanna á síðustu andartökum leiksins.

Einkennandi mynd fyrir Eyjaliðið í gær. Hjörvar Daði Arnarsson markvörður fagnar eins og hann hafi skorað eða jafnvel orðið Íslandsmeistari eftir að Þórsarinn Marc Rochester Sörensen skaut yfir marki úr aukaspyrnu í seinni hálfleik. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir að Eyjamenn komust í 2:0 var nokkuð ljóst að þeir færu með sigur af hólmi. Allur vindur virtist úr Þórsurum og var hann ekki mikill fyrir.

Leikmenn Þórs virtust engan veginn tilbúnir í alvöru slag í gær, sem er ekkert annað en ávísun á tap þegar andstæðingarnir eru lærisveinar Hermanns Hreiðarssonar. Gegn þeim – og auðvitað öllum öðrum – verða menn vitaskuld að leggja sig alla fram, berjast til síðasta manns; Deyja fyrir klúbbinn, eins og segir í laginu góða. Ekki bara stundum heldur alltaf.

Einkennandi var fyrir leikinn í gær að Eyjamenn voru háværir, hvöttu hvern annan stanslaust til dáða, fögnuðu hverri tæklingu og hverju misheppnuðu skoti Þórsara eins og þeir hefðu skorað. Hins vegar heyrðist varla hvorki hósti né stuna frá leikmönnum Þórs. Eyjamenn voru komnir í þjóðhátíðargírinn, enda stutt í hátíðina mikla í Eyjum um verslunarmannahelgina. Ótrúlega dauft var yfir heimamönnum sem var undarlegt og í raun óskiljanlegt vegna þess að vitað mál er að þeir geta miklu betur. Ekkert gerist af sjálfu sér og Þórsstrákarnir eru hér með hvattir til þess bretta upp ermar og sýna sjálfum sér og stuðningsmönnum liðsins hvað í þeim býr það sem eftir er sumars.

Þórsarar hafa aðeins unnið fjóra leiki af 14 í sumar og aldrei tvo í röð. Þeir eru með 17 stig í sjöunda sæti en þess ber þó að geta að Þórsliðið er aðeins fjórum stigum frá fimmta sæti, sem gefur rétt til þátttöku í umspili um sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Vonin um að komast í þá baráttu er því engan vegin úr sögunni, enda 24 stig í pottinum.

Til að bæta gráu ofan á svart var varnarjaxlinn Ragnar Óli Ragnarsson rekinn af velli á síðustu augnablikum leiksins. Eftir að hann braut á varnarmanni ÍBV reyndi Þórsarinn að aðstoða andstæðinginn við að komast sem fyrst á fætur og fékk að launum að líta gula spjaldið öðru sinni.

Næsti leikur Þórs er gegn liði Keflavíkur á útivelli á miðvikudaginn og vonandi nær Sigurður þjálfari að blása sínum mönnum baráttuanda í brjóst fyrir þann tíma.

Leikirnir sem Þórsarar eiga eftir eru þessir:

  • Keflavík – Þór
  • Þór – Njarðvík
  • Grindavík – Þór
  • Þór – Fjölnir
  • Leiknir – Þór
  • Þór – ÍR
  • Þór – Dalvík/Reynir
  • Grótta – Þór

Leikskýrslan

Staðan í deildinni