Fara í efni
Þór

Þórsarar köstuðu frá sér tveimur stigum

Glaður í bragði! Framherjinn Rafael Victor skoraði í síðustu viku gegn Gróttu eftir langa markaþurrð og í kvöld gerði hann bæði mörk Þórsliðsins. Hér fagna þeir Ingimar Kristjánsson seinna marki kvöldsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar gengu vonsviknir af velli í kvöld þegar Grindvíkingar komu í heimsókn í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Fengu þó eitt stig því liðin skildu jöfn, 2:2, en gestirnir voru orðnir tveimur færri þegar þeir jöfnuðu fáeinum mínútum fyrir leikslok. Ótrúlega klaufalegt hjá Þórsurum að láta tvö stig þannig fara í súginn, ef svo má segja.

Fyrri hálfleikur var afar dapur eins og gegn Gróttu í síðustu viku. Kwame Quee skoraði fyrir Grindvíkinga strax á fyrstu mínútu leiksins og fleira gerðist ekki sérlega markvert í fyrri hálfleik. Gestirnir héldu boltanum betur en það skilaði litlu og Þórsarar ógnuðu aldrei.

Sigurður þjálfari gerði þrjár breytingar á Þórsliðinu áður en flautað var til seinni hálfleiks og allt annað var að sjá til hans manna. Þeir voru kraftmeiri og áræðnari, svo fór að Rafael Victor skoraði tvívegis og allt benti til sigurs Þórsara því tveir Grindvíkingar fengu að líta rauða spjaldið. Sá fyrri var rekinn út af þegar 20 mínútur voru eftir, skömmu áður en Rafael gerði seinna markið, og hinum var gert að fara út af þegar rúmar fimm mínútur voru eftir.

Þórsarar áttu að vera með leikinn í hendi sér en þegar lítið var eftir náðu gestirnir snöggri sókn og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Meira síðar