Fara í efni
Þór

Þórsarar í sumarfrí eftir viðburðaríkan vetur

Lore Devos var besti leikmaður Þórs í vetur. Hér er hún í bikarúslitaleiknum gegn Keflavík, í fjarska er hin stórefnilega Emma Karólína Snæbjörnsdóttir sem sneri til baka eftir erfið meiðsla um miðjan vetur. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta er komið í sumarfrí eftir tap fyrir Grindvíkingum í þriðju viðureign liðanna í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta í gær. Suðurnesjaliðið hafði áður unnið tvo leiki og lokatölur í Smáranum í Kópavogi í gær voru 93:75 og Grindavíkurliðið er þar með komið í fjögurra liða úrslit.

  • Skorið eftir leikhlutum: 25:20 – 22:20 – 47:40 – 26:18 – 20:17 – 93:75

Grindvíkingar höfðu forystu frá upphafi en voru aldrei langt undan Þórsurum. Sjö stigum munaði í hálfleik og það var ekki fyrr en í þriðja leikhluta sem dró að ráði í sundur með liðunum; að honum loknum var munurinn orðinn 15 stig og ljóst að mjög erfitt yrði fyrir Stelpurnar okkar að vinna þann mun upp.

Kvennalið Þórs og hluti stjórnar körfuknattleiksdeildar þegar aðalstjórn félagsins heiðraði hópinn eftir bikarúrslitaleikinn. Það var gert í hálfleik viðureignar Þórs og Skallagríms í úrslitakeppni karla á dögunum. Aftari röð frá vinstri: Jóhann Jónsson meðstjórnandi, Hildur Ýr Kristinsdóttir varaformaður, Einar Örn Aðalsteinsson meðstjórnandi, Kasper Nói Stefánsson aðstoðarmaður, Vaka Bergrún Jónsdóttir, Eva Wium Elíasdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Maddie Sutton, Lore Devos, Katrín Eva Óladóttir, Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr Einarsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar. Fremri röð frá vinstri: Jón Ingi Baldvinsson meðstjórnandi, Hrefna Ottósdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði, Karen Lind Helgadóttir og Rebekka Hólm Halldórsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Helsta tölfræði Þórsara í leiknum í gær:

  • Lore Devos 24 stig - 8 fráköst - 3 stoðsendingar
  • Maddie Sutton 9 - 14 - 4
  • Emma Karólína Snæbjörnsdóttir 7 - 5 - 3
  • Hrefna Ottósdóttir 15 - 0 - 1
  • Eva Wium Elíasdóttir 11 - 2 - 3
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 3 - 2 - 1
  • Karen Helgadóttir 4 - 0 - 0
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 2 - 1 - 0
  • Rebekka Halldórsdóttir 0 - 1 - 0
  • Valborg Elva Bragadóttir 0 - 2 - 0

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Maddie Sutton, til vinstri, og Hrefna Ottósdóttir, tveir lykilmanna Þórsliðsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar voru nýliðar í deild þeirra bestu í vetur eins og margoft hefur komið fram. Léku þar í fyrsta skipti í 45 ár, fáeinum misserum eftir að liðið var endurvakið.

Þórsstelpurnar vöktu verðskuldaða athygli í vetur fyrir mikla leikgleði og gífurlegan baráttuvilja. Þær komust í úrslitakeppnina og einnig í bikarúrslitaleikinn, eftir að hafa lagt Grindvíkinga að velli í undanúrslitum – óvænt að flestra mati – og Suðurnesjaliðið hefndi fyrir það nú í úrslitakeppninni ef svo má segja.

Keflvíkingar unnu bikarúrslitaleikinn eins og reikna mátti með enda besta lið landsins, sem hitti meira að segja á sinn besta dag í það skipti, en Þórsarar máttu vera stoltir af framgöngu liðs síns í bikarkeppninni og í raun frammistöðu vetrarins í heild. 

„Ég held að þetta komi bara með reynslunni“

Skemmtilegt viðtal við Daníel Andra Halldórsson, þjálfara Þórs, birtist á Vísi í gærkvöldi.

Tapið í einvíginu við Grindavík sat í Daníel þegar hann ræddi við blaðamann, en hann kvaðst sáttur við tímabilið í heild.

„Ég er alveg barnalega tapsár, sama hvern ég er að spila við. En ég var inni í klefa að minna stelpurnar á það sem við höfðum náð á þessu tímabili. Við vorum nú bara í baráttu um efri hlutann þegar eitt atvinnumannagildið okkar fór bara rétt fyrir gluggalok,“ segir Davíð við Vísi.

„Við vissum að þetta yrði erfiðara seinni hlutann af tímabilinu en komum okkur samt í bikarúrslit. Þetta lið var bara endurvakið fyrir þremur árum og við erum bara að taka þetta í litlum skrefum og eru kannski bara á öðrum stað í okkar vegferð heldur en Grindavík og þessi topplið akkúrat núna.“

Það er vissulega ágætis árangur hjá nýliðum að ná í bikarúrslitaleik og komast í úrslitakeppni og Daníel sagðist líta á þetta tímabil sem stórt innlegg í reynslubankann fræga.

„Það voru alltaf háleit markmið um að efri hlutann og við vorum á góðu róli að komast þangað. Á fyrsta tímabili vill maður bara spila við þessar bestu, fá reynsluna og byggja ofan á það, safna sjálfstrausti og sérstaklega fyrir næsta tímabil. Að Þór geti gert betri hluti á næsta ári og með hverju árinu.“

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, og Karen Lind Helgadóttir leikmaður liðsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Breiddin er meiri í leikmannahópi Grindvíkinga; með fleiri leikmenn sem eru til í að skora og láta finna fyrir sér, eins og Daníel orðar það. „Ég held að þetta komi bara með reynslunni,“ segir hann. „Allar þessar stelpur sem eru í róteringu hjá Grindavík hafa spilað, sumar bara lengi, í efstu deild en hjá okkur eru bara einhverjar ein tvær með einhverja reynslu af ruslamínútum. Við erum bara að safna reynslu og vonandi verðum við á svipuðum stað og þær á næsta tímabili.“

Síðan segir á Vísi:

Daníel gerði tveggja ára samning við Þór sumarið 2022 og segist hafa hug á því að halda áfram með liðið og halda áfram að byggja á því starfi sem hann hefur lagt inn síðustu tímabil.

„Við erum allavega í viðræðum með það. Ég bara vona það, það er langbest að vera á Akureyri. Besta veðrið og fallegasta útsýnið. Vonandi náum við að ganga frá einhverju þar. Ég held að við höldum í megnið af hópnum okkar og komum bara sterkar til baka.“

Eva Wium Elíasdóttir er einn af máttarstólpum Þórsliðsins og var valin í landslið Íslands í vetur. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Vert er að vekja athygli á glæsilegri umfjöllun Vísis um leikinn í gær:

Hér er svo umfjöllun Akureyri.net um Þórsliðið þegar keppnistímabilið hófst í haust, það fyrsta í efstu deild í 45 ár: