Fara í efni
Þór

Þórsarar í roki og rigningu suður með sjó

Birgir Ómar Hlynsson og félagar mæta Keflvíkingum í Reykjanesbæ í kvöld. Hér er Birgir Ómar í leiknum gegn ÍBV á Akureyri á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar mæta liði Keflvíkinga í kvöld í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Liðin mætast að þessu sinni fyrir sunnan, illu heilli – og er það orðalag einvörðungu valið með veðrið í huga. Viðureignin verður sem sagt á heimavelli Keflvíkinga, sem um þessar mundir kallast HS Orku völlurinn.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar verða sannarlega ekki eins og best verður á kosið ef marka má veðurspána. Samkvæmt henni verður hvasst,  suðaustan 12 metrar á sekúndu, og úrhellisrigning á milli klukkan 18.00 og 20.00.

Á sama tíma verður um 20 stiga hiti á Akureyri, skýjað og austan gola. Nálægt fullkomnu fótboltaveðri. Aldrei hefur þýtt að deila við veðurguðina fremur en dómarann svo eina ráðið er að bretta upp ermar og láta sig hafa það; berjast til síðasta blóðdropa fyrir þremur mikilvægum stigum.

Keflavík er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 14 leiki og Þórsarar í áttunda sæti með 17 stig, einnig að loknum 14 leikjum.

Fyrri leik liðanna í deildinni í sumar lauk með 1:1 jafntefli á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) 25. maí þar sem Mamadou Diaw skoraði fyrir gestina undir lok fyrri hálfleiks en Árni Elvar Árnason jafnaði metin fyrir Þór rúmum 10 mín. fyrir leikslok.