Fara í efni
Þór

Þór vann Skallagrím og liðin mætast aftur

Harrison Butler var mjög áberandi í Þórsliðinu í gær, bæði í sókn og vörn. Hér ver hann skot Darius Banks (5) með tilþrifum. Páll Nóel Hjálmarsson (10) blandar sér í málið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu sjötta leikinn í röð í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar Skallagrímur úr Borgarnesi kom í heimsókn. Með sigrinum færðust Þórsarar upp um tvö sæti á stigatöflunni, tryggðu sér heimavallarétt í átta liða úrslitunum þar sem þeir mæta Skallagrími á nýjan leik. Úrslitakeppnin hefst 5. apríl, þar sem liðin í 2. - 9. sæti berjast um eitt laust sæti í efstu deild næsta vetur.

  • Skorið eftir leikhlutum: 23:20 – 19:25 – 42:45 – 21:26 – 23:8 – 86:79

Leikurinn var jafn lengi vel en sveiflukenndur. Gestirnir voru þremur stigum yfir í hálfleik eins og sjá má á tölunum hér að ofan og átta stigum yfir, 71:63, þegar fjórði og síðasta leikhluti hófst. Hann var hins vegar eign Þórsara sem fóru á köstum á meðan gestirnir misstu allan mátt; heimamenn unnu síðasta fjórðung með 15 stiga mun!

Harrison Butler var atkvæðamestur Þórsara, gerði 28 stig og tók 11 fráköst. Reynir Róbertsson skoraði 16 stig og þeir Baldur Örn Jóhannesson og Jason Gigliotti 12 hvor. Jason skorar alla jafna meira en aðrir voru í stuði að þessu sinni svo það kom ekki að sök. Hann var hins vegar öflugur undir körfunni að vanda og hirti 15 fráköst.

Harrison Butler á flugi undir lok leiksins í gærkvöldi. Andartaki síðar tróð hann boltanum með glæsibrag í körfuna og setti punktinn yfir i-ið! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tölfræði Þórsara, stig, fráköst, stoðsendingar:

Harrison Butler 28/8/1, Reynir Róbertsson 16/9/3, Jason Gigliotti 12/15/3, Baldur Örn Jóhannesson 12/7/4, Páll Nóel Hjálmarsson 7/1/1, Smári Jónsson 5/6/4, Andri Már Jóhannesson 3/1/1, Hákon Hilmir Arnarsson 3/1/1, Michael Walcott 0/3/1.

Skallagrímur: Darius Banks 23/8/3, Magnús Engill Valgeirsson 19/6/1, Nicolas Elame 17/8/2, Marinó Pálmason 12/3/4, Ragnar Magni Sigurjónsson 6/2/1, Orri Jónsson 2/3/4, Eiríkur Jónsson 0/2/2.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Silfur-stelpurnar hylltar

Kvennalið Þórs sem lék til úrslita í bikarkeppninni í körfubolta á laugardaginn var kallað fram á gólfið í hálfleik karlaleiksins í gær og þær hylltar. Nói Björnsson, formaður Þórs, og Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi félgasins afhentu leikmönnum og stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs blóm sem virðingarvott fyrir frækna frammistöðu í keppninni og þá voru Daníel Andri Halldórsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, sæmdir bronsmerki félagsins.

Nói Björnsson formaður Þórs og Lore Devos, sem verið hefur besti leikmaður Þórsliðsins undanfarið.

Kvennalið Þórs og hluti stjórnar körfuknattleiksdeildar í gærkvöldi. Aftari röð frá vinstri: Jóhann Jónsson meðstjórnandi, Hildur Ýr Kristinsdóttir varaformaður, Einar Örn Aðalsteinsson meðstjórnandi, Kasper Nói Stefánsson aðstoðarmaður, Vaka Bergrún Jónsdóttir, Eva Wium Elíasdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Maddie Sutton, Lore Devos, Katrín Eva Óladóttir, Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr Einarsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar. Fremri röð frá vinstri: Jón Ingi Baldvinsson meðstjórnandi, Hrefna Ottósdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði, Karen Lind Helgadóttir og Rebekka Hólm Halldórsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson