Fara í efni
Þór

Þór tapaði fyrsta leik eftir framlengingu

Brynjar Hólm Grétarsson reynir að komast gegnum varnarmúr Fjölnis í kvöld. Mynd: Þorgils G, af Facebook síðu handknattleiksdeildar Fjölnis

Þór tapaði 30:26 fyrir Fjölni eftir framlengingu í kvöld í fyrstu viðureign liðanna í úrslitarimmunni um sæti í efstu deild í handbolta næsta vetur. Staðan í Fjölnishöllinni í Reykjavík var 23:23 að loknum hinum hefðbundnu 60 mínútum.

Fjölnismenn höfðu fjögurra marka forskot, 21:17, þegar sjö mínútur voru eftir en Þórsarar harðneituðu að leggja árar í bát – eins og þeir höfðu reyndar einnig sýnt fyrr í leiknum – og það var Brynjar Hólm Grétarsson sem jafnaði á síðustu andartökum hefðbundins leiktíma. Fjölnisliðið reyndist svo sterkara í framlengingunni.

Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér sæti í efstu deild, Olís deildinni. Næsti leikur Þórs og Fjönis verður í Höllinni á Akureyri á þriðjudagskvöldið kemur.

Aron Hólm Kristjánsson tekinn föstum tökum í kvöld. Mynd: Þorgils G, af Facebook síðu handknattleiksdeildar Fjölnis

Jafnt var á með liðunum fyrstu mínúturnar en síðan koma afleitur kafli hjá Þórsurum; staðan breyttist úr 3:3 í 9:3 Fjölni í vil en þá hrukku gestirnir aftur í gang og minnkuðu muninn í tvö mörk, 11:9. Þór fékk tækifæri til að breyta stöðunni í 11:10 en tókst ekki, Fjölnir spýtti í lófana og staðan var 14:9 í hálfleik. 

Munurinn varð aftur eitt mark um miðjan seinni hálfleik, 17:16, en Fjölnir komst svo í 21:17 sem fyrr segir. Þór átti svo lokamínúturnar en heimamenn framlengingu.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 8, Aron Hólm Kristjánsson 8, Sigurður Ringsted Sigurðsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 3, Þormar Sigurðsson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 18 (37,5%)

Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 9, Haraldur Björn Hjörleifsson 5, Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 3, Elvar Þór Ólafsson 2, Bernhard Snær Petersen 2, Dagur Logi Sigurðsson 1.

Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 15 (36,6%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Handboltavefur Íslands, handbolti.is, fjallar myndarlega um leikinn og birtir viðtöl við þjálfara beggja liða. Smellið hér til að sjá og heyra.