Fara í efni
Þór

Þór Íslandsmeistari 3. flokks í knattspyrnu

Þórsarar urðu Íslandsmeistarar í 3. flokki karla í knattspyrnu í gær eftir að hafa unnið sameiginlegt lið ÍA, Skallagríms og Víkings frá Ólafsvík, örugglega, 5:2, á Akranesi í síðasta leik beggja í mótinu.

Fyrir leikinn áttu Akurnesingar (og samstarfsmenn þeirra) möguleika á að jafna Þórsara að stigum en þegar til kom reyndust Akureyringarnir of sterkir til að það væri raunhæft. Þór komst í 2:0; Sverrir Páll Ingason og Ásbjörn Líndal Arnarsson skoruðu með stuttu millibili eftir um það til hálftíma en Gabríel Snær Gunnarsson minnkaði muninn fyrir lok fyrri hálfleiks.

Ásbjörn kom Þór í 3:1 snemma í seinni hálfleik, Andri Fannar Ellertsson minnkaði muninn mínútu seinna og Ásbjörn kom Þór í 4:2 um miðjan hálfleikinn með þriðja marki sínu. Rúnar Daði Vatnsdal Sveinsson rak svo smiðshöggið á magnað sumar með fimmta markinu á síðustu augnablikum leiksins.

„Strákarnir hafa átt mjög góðu gengi að fagna í allt sumar og óhætt að segja að Íslandmeistaratitillinn sé verðskuldaður en um er að ræða sérstaklega glæsilegan árangur í ljósi þess að tveir liðsmenn úr hópnum voru seldir til danska meistaraliðsins Midtjylland um mitt sumar; þeir Sigurður Jökull Ingvason og Egill Orri Arnarsson. Að auki hafa leikmenn úr 3. flokki verið viðloðandi meistaraflokk Þórs og tveir þeirra spilað sína fyrstu meistaraflokksleiki í sumar,“ segir á heimasíðu Þórs.

Leikskýrslan

Staðan í riðlinum

Myndin var tekin eftir leikinn á Skaganum í gær. Aftari röð frá vinstri: Ármann Pétur Ævarsson þjálfari, Frank Satorres, Kjartan Steinn Jónasson, Rúnar Daði Vatnsdal, Gunnar Karl Valtýsson, Peter Ingi Helgason Jones, Natan Aðalsteinsson, Lucas Viera Thomas, Kjartan Ingi Friðriksson, Lárus Sólon Biering, Kári Jónsson, Friðrik Helgi Ómarsson, Aðalgeir Axelsson þjálfari og Franz Hrólfur Friðriksson.

Fremri röð frá vinstri: Sverrir Páll Ingason, Einar Freyr Halldórsson, Ásbjörn Líndal Arnarsson, Hafþór Ingi Ingason, Kristófer Kató Friðriksson, Eiður Logi Stefánsson og Oliver Sesar Bjarnason. Í þjálfarateyminu eru einnig Steinar Logi Rúnarsson og Aron Birkir Stefánsson.