Fara í efni
Þór

Komast Þórsarar í úrslitaleikinn?

Fannar Daði Malmquist Gíslason, Aron Ingi Magnússon og Marc Rochester Sørensen verða væntanlega allir í eldlínunni í Boganum í dag. Þeir hafa allir leikið vel í Lengjubikarkeppninni til þessa. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór og Breiðablik mætast í undanúrslitaleik Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu í dag. Viðureignin fer fram í Boganum og ástæða er til að vekja athygli á óvenjulegum leiktíma – flautað verður til leiks klukkan 16.30.

Óhætt er að segja að leikur dagsins sé stærsta próf Þórsara til þessa á leiktíðinni. Þeir unnu þrjú lið úr efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni, af miklu öryggi; HK, KR og Stjörnuna, en hafa verður í huga að tvö síðarnefndu liðin stilltu upp mjög ungum liðum í Boganum, sem vakti töluverða athygli. Næsta víst má telja að Blikarnir mæta með sína sterkustu sveit í dag – vonandi gera þeir það.

Þór og Breiðablik hafa einu sinni mæst í undanúrslitum Lengjubikarkeppninnar. Það var í apríl 2014, sá leikur var einnig í Boganum og Kópavogsliðið vann 2:1.  Hér má sjá leikskýrsluna.

Aron Ingi Magnússon hefur gert 4 mörk í Lengjubikarkeppninni í ár og þeir Rafael Victor og Fannar Daði Malmquist Gíslason 3 hvor.