Fara í efni
Þór

Sjöunda jafntefli Þórs í átján deildarleikjum

Birkir Heimisson skoraði mark Þórs í jafntefli gegn Fjölni í dag, en fékk síðan að líta rauða spjaldið nokkrum mínútum síðar. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason

Þór og Fjölnir gerðu jafntefli í leik í 18. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í dag, 1-1. Þórsarar léku einum færri ríflega helminginn af leiknum. Þetta var sjöunda jafntefli Þórs í 18 deildarleikjum, en liðið hefur aðeins náð sér í tvö stig af 18 mögulegum í síðustu sex leikjum.

Fyrri hálfleikurinn var fremur tíðindalítill lengst af, en það breyttist á lokamínútum hálfleiksins. Birkir Heimisson kom Þórsurum í forystu þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum, en áður en hálfleikurinn var úti lauk hann leik því hann fékk beint rautt spjald um sex mínútum síðar. Þórsarar fóru því inn í klefa eftir fyrri hálfleikinn með eins marks forystu, en einum leikmanni færri.

Það tók gestina innan við mínútu að jafna leikinn eftir að seinni hálfleikurinn byrjaði, fyrirgjöf sem Rafael Máni Þrastarson notfærði sér og skallaði boltann í markið. Um miðbik seinni hálfleiksins náðu Þórsarar reyndar að skora aftur, en markið dæmt af vegna rangstöðu. Seinni hálfleikurinn var opnari og fjörugri en sá fyrri, en liðunum tókst þó ekki að bæta við mörkum og 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Þórsarar bæta einu stigi í sarpinn, eru með 19 stig úr 18 leikjum, einu stigi meira en Leiknir. Röð neðstu liða Lengjudeildar karla er því óbreytt, Þór í 9. sæti, Leiknir í 10. sæti, en Dalvík/Reynir og Grótta með 13 stig þar fyrir neðan í fallsætunum. Grótta á leik til góða. Þórsarar eiga einmitt eftir að spila við þessi þrjú lið. Næsti leikur Þórsara er gegn Leikni á útivelli laugardaginn 24. ágúst. 

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna og  hér til að skoða stöðuna í Lengjudeild karla ásamt leikjadagskránni. 

Fjórum sinnum Aron

Fjórir að nafni Aron voru í byrjunarliði Þórs í dag. Aron Birkir Stefánsson, Aron Kristófer Lárusson, Aron Einar Gunnarsson og Aron Ingi Magnússon. Hér að neðan eru myndir af þremur þeirra.