Fara í efni
Þór

Sigur í Mosfellsbæ í dag kæmi Þór í fjórða sæti

Rafael Victor er markahæstur Þórsara í Lengjudeildinni með fimm mörk. Hann hefur gert þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum, hér fagnar framherjinn eftir að hann skoraði í 3:1 sigri á Gróttu. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ í dag í 12. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 16.00.

Liðin var spáð tveimur efstu sætunum í árlegum spám í vor en eru rétt fyrir neðan miðja deild nú þegar hefðbundin deildakeppni er hálfnuð. Baráttan er þó svo jöfn að nái annað hvort liðið að sigra í dag skýst það upp í fjórða sæti og blandar sér þar með af krafti í baráttu efstu liða. Það lið sem vinnur deildina fær sæti í Bestu deildinni að ári en liðin í sætum 2 til 5 mætast í umspili um annað laust sæti í deild þeirra bestu.

Fyrri leikur Þórs og Aftureldingar, í 2. umferð deildarinnar í vor, er án efa mörgum í fersku minni. Liðin mættust í Boganum, Afturelding skoraði strax á annarri mínútu og komst í 2:0 á níundu mínútu.

Birkir Heimisson minnkaði muninn á 19. mín. með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu og Egill Orri Arnarsson jafnaði þegar 20 mín. voru eftir.

Uppbótartímann var afar dramatískur; Rafael Victor kom Þór yfir og Sigfús Fannar Gunnarsson innsiglaði sætan sigur með marki á síðustu andartökunum.