Fara í efni
Þór

Sex stelpur endurnýja samning við Þór/KA

Systurnar Margrét, til vinstri, og Amalía Árnadætur ásamt Dóru Sif Sigtryggsdóttur formanni stjórnar Þórs/KA.

Sex leikmenn endurnýjuðu á dögunum samning við knattspyrnulið Þórs/KA. Agnes Birta Stefánsdóttir, Amalía Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Karen María Sigurgeirsdóttir og Margrét Árnadóttir hafa allar skrifað undir nýjan samning við félagið til næstu tveggja ára.

„Allar koma þær úr röðum Akureyrarfélaganna og eru hluti af þeim stóra hópi sem Þór/KA hefur á að skipa af heimaöldum leikmönnum. Segja má að þrjár af þessum sex hafi verið lykilleikmenn með liðinu í sumar og undanfarin ár og þrjár þær yngri hafa komið sterkar inn í liðið í sumar og fyrrasumar, misjafnlega mikið og oft, en má gera ráð fyrir að verði lykilleikmenn á komandi árum,“ segir á vef liðsins.

Semja til tveggja ára. Frá vinstri: Karen María Sigurgeirsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Agnes Birta Stefánsdóttir, Amalía Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Margrét Árnadóttir.

Fjársjóður innan félagsins

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, fagnar því að hafa þessar knattspyrnukonur áfram í röðum félagsins. „Félagið hefur á að skipa fjölmörgum sterkum heimastelpum sem halda tryggð við Þór/KA og leggja sig allar fram fyrir félagið, innan og utan vallar,“ segir hún á vef liðsins. „Það er í raun mikið fagnaðarefni fyrir Þór/KA að fá á hverju ári margar efnilegar knattspyrnukonur úr yngri flokkunum inn í meistaraflokkinn. Þetta er fjársjóður sem við fögnum því að geta gengið í og viðhaldið þannig sterku knattspyrnuliði á landsvísu, og raunar mörgum sterkum knattspyrnuliðum þegar liðin okkar í 2. og 3. flokki eru talin með,“ segir Dóra Sif.

Lykilforsenda á vegferðinni

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst ánægður með að halda bæði sterkum og reyndari leikmönnum sem og þeim ungu og efnilegu sem nú hafa skrifað undir nýja samninga hjá félaginu. „Það er mikil viðurkenning fyrir okkur í Þór/KA að sterkir, reyndir leikmenn sem og ungir og bráðefnilegir leikmenn skrifi undir samning við félagið. Þetta er ekki bara lykilforsenda fyrir þá vegferð sem við erum á heldur er þetta staðfesting á því góða starfi sem allir í félaginu eru að vinna. Ég er himinlifandi með að núverandi hópur mun haldast svo til óbreyttur milli tímabila. Það er bara tilhlökkun að byrja aftur eftir pásuna,“ segir Jóhann Kristinn.

Nánari upplýsingar hér um leikmennina sex.