Fara í efni
Þór

Sanngjarn Þórssigur og úrslit ráðast á mánudag

Þórsarar fögnuðu að vonum innilega eftir sigurinn. Lengst til vinstri er Kristján Páll Steinsson markvörður sem var frábær í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu sanngjarnan baráttusigur, 31:26, á liði Harðar frá Ísafirði á heimavelli í kvöld, í úrslitakeppni Grill 66 deildarinnar í handbolta, næst efstu deildar Íslandsmótins. Harðarmenn voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik í Íþróttahöllinni, 15:13, en Þórsarar léku vel í seinni hálfleik og sigurinn var verðskuldaður.

Þetta var önnur viðureign liðanna, Hörður vann þá fyrri á Ísafirði en tvo sigra þarf til að komast áfram þannig að úrslitin ráðast í þriðja og síðasta leiknum sem fram fer á Ísafirði á mánudaginn. Sigurvegari þessarar rimmu mætir Fjölni í úrslitaeinvígi um hvort liðið fylgir ÍR upp í efstu deild, Olís deildina.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 11, Friðrik Svavarsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Þormar Sigurðsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 23

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Fjölmennt var á áhorfendapöllunum og stemningin góð. Mynd: Skapti Hallgrímsson