Fara í efni
Þór

Sannfærandi Þórslið sýndi hvað í því býr

Birkir Heimisson lék gríðarlega vel með Þórsliðinu í Mosfellsbæ í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu Aftureldingu 3:0 á útivelli í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þórsliðið var mjög sannfærandi í dag og fór með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar; hefur nú 17 stig að loknum 12 leikjum.

Í síðustu tveimur leikjum höfðu Þórsarar verið afar daufir í fyrri hálfleik en nú var heldur betur annað upp á teningnum. Þeir byrjuðu af miklum krafti og gerðu öll mörkin í fyrri hálfleik. Þar var sem sagt grunnurinn að mögnuðum sigri lagður og í seinni hálfleik héldu Þórsarar fengnum hlut á mjög fagmannlegan hátt.

Leikurinn byrjaði ótrúlega fjörlega af beggja hálfu. Þórsarinn Vilhelm Ottó Biering Ottósson fékk dauðafæri strax á 2. mínútu en skaut framhjá, á 7. mínútu fengu Þórsarar víti þegar brotið var á Rafael Victor og hann skoraði sjálfur og á 10. mín. fékk Afturelding dauðafæri en Auðunn Ingi Valtýsson, sem leysti Aron Birki Stefánsson af í Þórsmarkinu í dag, varði mjög vel.

Markvörður Aftureldingar varði svo frábærlega frá Dananum Marc Rochester Sörensen á 16. mínútu eftir mjög góða sókn Þórs og fjórum mín. síðar komust Þórsarar í 2:0. Þar var á ferðinni áðurnefndur Vilhelm Ottó eftir góða sendingu Fannars Daða Malmquist. Þetta var fyrsta mark Vilhelms Ottó fyrir meistaraflokk Þórs.

Vilhelm Ottó Biering Ottósson, til vinstri, skoraði í fyrsta sinn fyrir Þór í dag og Rafel Victor gerði tvö mörk. Hann hefur nú skorað fimm mörk í þremur síðustu leikjum og sjö alls í deildinni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Ótrúlegur upphafskafli en eftir þetta náðu Þórsarar stjórninni, héldu heimamönnum í skefjum og bættu svo þriðja markinu við á 38. mín. Rafael Victor gerði þá annað mark sitt í leiknum, hefur þar með gert fimm í síðustu þremur leikjum og sjö alls í deildinni. Augljóst mál að framherjinn sjóðhitnaði skyndilega eftir að hann braut ísinn og náði að skora gegn Gróttu á dögunum eftir langa markaþurrð.

Lykillinn að þriðja markinu var stórkostleg sending Birkis Heimissonar inn fyrir vörn Aftureldingar.

Aron Birkir Stefánsson, markvörður og fyrirliði Þórs, sat á bekknum í dag og Auðunn Ingi Valtýsson leysti hann af sem fyrr segir. Auðunn Ingi stóð sig mjög vel.

Fannar Daði Malmquist Gíslason bar fyrirliðabandið í stað Arons Birkis. „Mikill heiður,“ sagði hann við fotbolti.net, spurður um hvernig væri að vera fyrirliði. „Ég er mikill Þórsari og það er heiður að vera fyrirliði.“ Ekkert ofsagt þar; Fannar Daði er systursonur kappanna Arons Einars og Arnórs Þórs Gunnarssona. 

Segja má að Þórsliðið hafi sprungið út í dag; liðið sýndi það sem allir vita að í því býr. Dugnaður, samheldni og kraftur í bland við útsjónarsemi og gæði einkenndu leikinn og vonandi heldur liðið áfram á sömu braut. Mannauðurinn í leikmannahópnum og þjálfarateyminu er slíkur að liðið á að vera í toppbaráttu.

Þór er án taps í síðustu fimm leikjum, hefur unnið þrjá og gert tvö jafntefli. Næstu tveir leikir eru á heimavelli, gegn Þrótti og ÍBV, og verður afar spennandi að sjá hvort Þórsarar ná að láta kné fylgja kviði og koma sér enn ofar í deildinni.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna