Fara í efni
Þór

Ögurstund í kvöld: Nú er að duga eða drepast!

Fjölnismaðurinn Björgvin Páll Rúnarsson reynir að smeygja sér í gegnum þéttan varnarmúr í sigurleik Þórs í Fjölnishöllinni fyrir tæpri viku. Þórsararnir eru Brynjar Hólm Grétarsson, Sigurður Ringsted Sigurðsson og Aðalsteinn Ernir Bergþórsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Nú er að duga eða drepast!

Handboltalið Þórs og Fjölnis mætast í kvöld í fimmta og síðasta úrslitaleiknum um sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili. Hvort lið hefur unnið tvo leiki til þessa og sigurvegarinn í kvöld leikur næsta vetur í deild þeirra bestu, Olís deildinni.

Leikurinn fer fram í Fjölnishöllinni, heimavelli Fjölnismanna í Egilshöll, og hefst kl. 18.30. Vitað er að hópur stuðningsmanna Þórs kemur að norðan og félagsmenn búsettir á höfuborgarsvæðinu hafa verið hvattir til að mæta og hvetja Þórsstrákana til sigurs. Fjöldi Þórsara mætti á síðasta leik í Fjölnishöllinni þar sem þeir fögnuðu sætum sigri en urðu síðan að sætta sig við tap á heimavelli, þar sem Þór hefði tryggt sær sæti í efstu deild með sigri.

„Hætt er við að Fjölnismenn verði heldur ferskari en Þórsarar þar sem þeir fengu hvíld á meðan Þórsarar spiluðu þrjá leiki við Hörð í undanúrslitunum, þar af tvo á Ísafirði,“ segir á heimasíðu Þórs í dag, en „liðið hefur sýnt að það hefur í fullu tré við Fjölni á góðum degi, hvort sem er á heima- eða útivelli. Enn og aftur skal því minnt á mikilvægi öflugs stuðngins úr stúkunni - slíkt verður seint ofmetið.“

Akureyri.net hvetur alla sem eiga heimangengt til að mæta í kvöld og styðja Þórsara. Það er spennandi tilhugsun að bæði Akureyrarliðin verði í efstu deild næsta vetur, ekki síst vegna þess að tryggt væri að bæjarbúum yrði boðið upp á tvo nágrannaslagi af bestu gerð!