Fara í efni
Þór

María Catharina til Linköping í Svíþjóð

María Catharina eftir að hún gerði þrjú mörk fyrir Fortuna Sittard í undanúrslitaleik hollensku bikarkeppninnar í apríl síðastliðnum. Mynd: Fortuna Sittard.

Akureyringurinn María Catharina Ólafsdóttir Gros, fyrrverandi leikmaður Þórs/KA, hefur samið til þriggja og hálfs árs við sænska knattspyrnufélagið Linköping. Hún er aðeins 21 árs en er þrátt fyrir það nú þegar mjög reyndur leikmaður.

María Catharina lék fyrst í efstu deild á Íslandi sumarið 2018, þá 15 ára, og tók þátt í alls 46 leikjum í deild þeirra bestu hér heima þar sem hún gerði fimm mörk. Hún lék með Celtic í Skotlandi hluta árs 2021, síðast með Þór/KA sumarið 2022 en samdi við Fortuna Sittard í Hollandi í ársbyrjun 2023 og hefur leikið þar síðan. Hún á að baki 33 leiki með yngri landsliðum Íslands.

María ólst upp á Akureyri, lék með Þór í yngri flokkunum og komst ung í meistaraflokk Þórs/KA. Faðir hennar er íslenskur en móðirin sænsk, þannig að tengingin við Svíþjóð er sterk. „Ég er mjög spennt og ánægð með að hafa skrifað undir hjá Linköping. Það hefur verið draumur minn síðan ég var lítil að spila í efstu deild í Svíþjóð og ég er stolt og þakklát fyrir að fyrsti samningurinn minn í Svíþjóð skuli vera við jafn sögufrægt og gott félag,“ segir María Catharina á heimasíðu félagsins.

Hún kveðst sannfærð um að það sé rétt ákvörðun að semja við Linköping, þar fái hún gott tækifæri til að bæta sig sem leikmaður og hún geti lagt sitt af mörkum til þess að hjálpa liðinu, bæði í sænsku deildarkeppninni og Evrópukeppni.

Linköping tekur þátt í undankeppni Meistaradeildarinnar í byrjun september og spilar á heimavelli, Linköping Arena. Linköping mætir Sparta Prag 4. september. Sigurlið þeirrar viðureignar mætir sigurliðinu úr viðureign franska liðsins Paris FC og First Vienna FC frá Austurríki.

Yfirþjálfari Linköping, Rafael Roldán, segir í samtali við heimasíðu félagsins að hann sé mjög ánægður að fá Maríu til liðs við félagið. „Hún er leikmaður með gríðarlega mikla möguleika,“ segir hann. María geti með eigin dugnaði og hjálp félagsins þróast sem leikmaður með þessu skrefi á sínum ferli núna. „Við trúum því að hún muni geta hjálpað liðinu að taka skref fram á við. María hefur verið atvinnumaður í mismunandi löndum og deildum svo hún er meðvituð um hvers er krafist og það að hún var ákveðin í að Linköping væri félagið sem hún vildi ganga í gerði okkur mjög stolt,“ segir yfirþjálfarinn.

Sumarfrí er nú í sænsku deildinni en keppni hefst á ný um miðjan ágúst. Linköping er í sjötta sæti deildarinnar.