Fara í efni
Þór

„Höfum sýnt að við getum unnið þetta lið“

Lore Devos hefur leikið gríðarlega vel með Þór í vetur og var frábær í undanúrslitaleiknum gegn Grindavík. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Við verðum að gera nákvæmlega það sama gegn Keflavík [og í undanúrslitunum gegn Grindavík]. Vörnin okkar verður að vera frábær því Keflavík er með besta sóknarliðið í deildinni. Leikmenn Keflavíkur eru vel samhæfðar og liðið er með mikla breidd. En ekki gleyma að við höfum sýnt það í vetur að við getum unnið þetta lið!“

Þetta segir Lore Devos í viðali á heimasíðu Þórs í aðdraganda úrslitaleiks bikarkeppninnar í körfubolta þar sem Þór mætir Keflavík í Laugardalshöll kl 19.00 annað kvöld.

Keflavík hefur aðeins tapað tveimur leikjum í vetur; fyrir Þór á Akureyri í nóvember, 87:83, og fyrir Val í Reykjavík í janúar, 79:77.

„Þetta var svo frábær sigur á miðvikudaginn!“ sagði Lore. Hún hefur leikið mjög vel í vetur og var frábær gegn Grindavík:

  • Lore lék allan tímann – 40 mínútur
  • Hún skoraði 32 stig og tók 12 fráköst
  • Skotnýting hennar var frábær: Hitti úr sex af átta 2ja stiga skotum og öllum fjórum 3ja stig skotum – það er 83% nýting.
  • Hún hitti úr átta af níu vítaskotum – 89% 

„Þessi bikarvika er mjög spennandi fyrir liðið og stuðningsfólkið, og við höfum hlakkað mikið til. Stelpurnar eru að spila í þessari höll í fyrsta skipti og í fyrsta skipti í 49 ár sem Þór fer í úrslitaleikinn, það er hreint magnað!“ segir Lore þegar hún er spurð um þátttöku liðsins í þessari hátíð sem staðið hefur yfir í VÍS-bikarnum í vikunni.

„Þessir útsláttarleikir snúast virkilega um það að gefa allt í leikinn í 40 mínútur. Ég held að við höfum einmitt gert það gegn Grindavík. Danni þjálfari undirbjó okkur mjög vel fyrir það sem koma skyldi og hvað við þyrftum að gera til að vinna þennan leik. Mér finnst allt liðið hafa staðið sig stórkostlega í því að framkvæma það.“

Á heimasíðu Þórs er rifjað upp að í undanúrslitunum á miðvikudag hafi frekar fámennur hópur stuðningsfólks Þórs látið vel í sér heyra og verið síst minna áberandi en fjölmennt lið Grindvíkinga. „Stemningin og stuðningsfólkið á miðvikudaginn var stórkostlegt og við skulum gera það enn betra á laugardagskvöldið. Við ætlum að skemmta okkur vel, njóta augnabliksins og á slíkum stundum spilum við okkar besta körfubolta. Áfram Þór!“ segir Lore Devos, klár í annan stórleik annað kvöld.