Fara í efni
Þór

Góður leikur Þórsara dugði ekki til sigurs

Reynir Róbertsson var frábær í leiknum gegn ÍR - hér skorar hann tvö af 32 stigum. Mynd: Páll Jóhannesson

Góður leikur Þórsara í öðrum leik liðsins gegn ÍR-ingum í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta dugði þeim ekki til sigurs og ÍR-ingar eru komnir í 2:0 í einvíginu. 

Liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. 

  • Skorið eftir leikhlutum: 23:22 – 28:25 – 51:47 – 22:30 – 16:23 – 89:100

ÍR-ingar byrjuðu betur, en Þórsarar höfðu yfirhöndina að loknum fyrri hálfleiknum, unnu fyrsta leikhluta með einu stigi og annan með þremur, staðan 51:47 eftir fyrri hálfleikinn. Leikur liðsins var heilt yfir góður og Þórsarar með forystu vel inn í þriðja leikhlutann. ÍR-ingar áttu þá gott áhlaup og náðu 10 stiga forskoti. Þórsarar héldu áfram að berjast fyrir sigri og náðu að minnka muninn í eitt stig þegar ein og hálf mínúta var eftir. ÍR-ingar settu þá tvo þrista ofan í á meðan skotin rötuðu ekki rétta leið hjá Þórsurum. Tíu síðustu stig leiksins komu frá ÍR-ingum, sem hafa nú 2:0 forystu í einvíginu sem fyrr segir.

Reynir Róbertsson var frábær í leiknum í gær, skoraði 32 stig. Jason Gigliotti var einnig öflugur að venju, með 24 stig og 15 fráköst.

Helsta tölfræði Þórsara:

  • Reynir Róbertsson 32 stig – 5 fráköst – 2 stoðsendingar
  • Jason Gigliotti 24 – 15 – 2
  • Harrison Butler 15 – 6 – 4
  • Baldur Jóhannesson 7 – 5 – 3
  • Smári Jónsson 5 – 1 – 3
  • Andri Már Jóhannesson 4 – 4 – 0
  • Páll Nóel Hjálmarsson 2 – 2 – 0

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Jason Gigliotti í baráttu undir körfunni í gær. Hann gerði 24 stig og tók 15 fráköst. Mynd: Páll Jóhannesson

Þriðji leikurinn fer fram í Breiðholtinu á miðvikudagskvöld. Þar verða Þórsarar að finna einhver tromp uppi í erminni því ÍR-ingum nægir einn sigur í viðbót til að vinna einvígið. Sigurlið þessarar rimmu mætir Fjölni eða Sindra í úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild á næsta tímabili.

Harrison Butler skorar tvö af 15 stigum í leiknum. Mynd: Páll Jóhannesson.