Fara í efni
Þór

Þór selur Egil Orra til FC Midtjylland

Egill Orri Arnarsson og Flemming Broe, yfirmaður akademíu FC Midtjylland.

Danska knattspyrnufélagið FC Midtjylland hefur keypt Þórsarann stórefnilega, Egil Orra Arnarsson. Hann leikur sem vinstri bakvörður. Egill hélt upp á 16 ára afmælisdaginn sinn í gær í Danmörku þar sem hann skrifaði undir samning við Midtjylland eftir að Þór samþykkti kauptilboð danska félagsins á dögunum.

Egill var samningsbundinn Þór út árið 2025. Hann mun ganga til liðs við danska félagið þann 1. júlí næstkomandi og æfa og leika með unglingaliðum félagsins. Þangað til leikur Egill Orri áfram með Þór.

FC Midtjylland „leggur mikið upp úr þróun ungra leikmanna og hefur á að skipa einu öflugasta unglingastarfi Danmerkur og þar með Evrópu í dag,“ segir á heimasíðu Þórs í morgun. Aðallið Midtjylland er nú í efsta sæti Superligunnar, efstu deildar í Danmörku og hefur þrívegis orðið danskur meistari á síðustu 10 árum.

Á heimasíðu Þórs segir:

Egill Orri þreytti frumraun sína í meistaraflokki Þórs síðasta sumar og hefur þegar leikið 17 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim eitt mark.

„Eitt af okkar helstu markmiðum í afreksstarfi er að úr unglingastarfi Þórs komi reglulega leikmenn sem séu nægilega góðir til að komast í atvinnumennsku erlendis. Við teljum að með því að samþykkja kauptilboð Midtjylland séum við að gera Agli kleift að taka gott skref í átt að því. Það verður söknuður af Agli í okkar starfi en á sama tíma erum við stoltir af því að veita honum tækifæri til að taka þetta skref á sínum ferli,“ segir Arnar Geir Halldórsson, yfirþjálfari Þórs. „Við bindum miklar vonir við að hjá Midtjylland muni Egill fá úrvals umhverfi til að halda áfram að bæta sig í fótbolta og þroskast og þróast í vegferð sinni að því að verða fótboltamaður í fremstu röð.“

Félagaskiptin taka formlega gildi 1. júlí sem fyrr segir „og munum við hér eftir sem hingað til hjálpa Agli við að vera sem best undirbúinn fyrir að færa sig um set til Danmerkur,“ segir Arnar Geir. „Við óskum Agli til hamingju með þetta flotta skref og hlökkum til að fylgjast með honum vaxa og dafna í Danmörku þegar þar að kemur og njótum þess að fylgjast með honum í Þórsbúningnum þangað til.“

Heimasíða Þórs

Egill Orri fagnar eftir að hann skoraði í sigurleiknum gegn Stjörnunnar í Lengjubikarkeppninni sem fram fór í Boganum 18. febrúar. Þetta var fyrsta mark hans fyrir meistaraflokk Þórs. Neðri myndirnar, frá vinstri: Egill Orri hjá Midtjylland í byrjun þessa árs, á æfingu hjá Bröndby í Danmörku í maí 2023 og í búningi Torino á Ítalíu í árslok 2022. Í miðjunni handsala þeir svo samninginn í gær, Egill Orri Flemming Broe, yfirmaður akademíu FC Midtjylland.