Fara í efni
Þór

Aron, Ingimar og Ragnar Óli framlengja

Ragnar Óli Ragnarsson, Ingimar Arnar Kristjánsson og Aron Ingi Magnússon. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þrír leikmenn knattspyrnuliðs Þórs hafa framlengt samning við félagið. Þetta var tilkynnt í dag og er því skammt stórra högga á milli því á gamlársdag var tilkynnt um fimm leikmenn sem gerðu slíkt hið sama.

Þeir sem tilkynnt var um í dag eru Aron Ingi Magnússon, Ingimar Arnar Kristjánsson og Ragnar Óli Ragnarsson sem allir léku stórt hlutverk í Þórsliðinu síðasta sumar og hafa öðlast töluverða reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

Allir gera þeir samning sem gildir út keppnistímabilið 2026.

Á heimasíðu Þórs segir um leikmennina: 

Aron Ingi Magnússon (f. 2004) - Aron Ingi hefur leikið 51 leik fyrir meistaraflokk Þórs en hann var að ganga upp úr 2. flokki nú í haust. Aron hefur skorað átta mörk í meistaraflokki, sjö þeirra á síðustu leiktíð. Aron fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og var lánaður til Ítalíu þar sem hann lék með unglingaliði Venezia leiktíðina 22/23. Aron hefur leikið 4 leiki fyrir U19 ára landslið Íslands.

Ragnar Óli Ragnarsson (f. 2003) - Ragnar Óli hefur leikið 49 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað í þeim eitt mark. Ragnar fór upp í gegnum alla yngri flokka Þórs og var fyrirliði 2. flokks sumarið 2022. 

Ingimar Arnar Kristjánsson (f. 2005) - Ingimar Arnar hefur leikið 32 leiki fyrir meistaraflokk Þórs og skorað þrjú mörk en hann er enn gjaldgengur í 2. flokk. Ásamt því að spila mikið með meistaraflokki síðasta sumar var Ingimar meðal markahæstu leikmanna landsins í 2. flokki þar sem hann skoraði 21 mark í 16 leikjum.