Fara í efni
Þór

Aðdáunarverð barátta og sigurvilji Þórsara

Leiktíminn úti! Maddie Sutton og hinar Þórsstelpurnar átta sig á því að þær eru komnar í úrslit. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir

Kvennalið Þórs í körfubolta tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar með frábærum sigri á öflugu liði Grindvíkinga. Lokatölur urðu 79-75 og má segja að hreint ótrúlegur annar leikhluti hafi skipt sköpum þegar upp var staðið, ásamt gríðarlegri baráttu, sigurvilja og trú leikmanna Þórs á verkefnið. Næsta verkefni verður stærra, úrslitaleikur gegn Keflvíkingum í Laugardalshöllinni á laugardag, en þá er bara að stíga feti framar en í kvöld og nýta meðbyrinn.

  • Skorið eftir leikhlutum: 25:28 – 23:9 – 48:37 – 16:21 – 15:17–  79:75

Grindvíkingar voru öllu fjölmennari í stúkunni en stuðningssveitin að norðan, eðli málsins samkvæmt, en þau rauðklæddu létu vel í sér heyra frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu. Stemningin meðal stuðningsmanna beggja liða var frábær og skilaði sér inn á völlinn til liðanna. 

Fyrsti leikhlutinn var hraður og skemmtilegur, mikið skorað og munurinn aldrei meiri en þrjú stig á annan hvorn veginn. Grindavík leiddi þó lengst af og hafði þriggja stiga forystu eftir fyrsta fjórðung. Fyrstu þrjú stig annars leikhluta komu úr Grindavík, en síðan ekki söguna meir í rúmar sjö mínútur! Ævintýralegur kafli þar sem Þór skoraði 17 stig í röð og staðan orðin 42-31 áður en næsta stig kom frá Grindvíkingum þegar 2:18 voru eftir af fyrri hálfleik. Þegar upp var staðið unnu Þórsarar annan leikhlutann með 14 stiga mun 23-9.

Fréttaritara varð hugsað til leiksins fræga í Smáranum, fyrsta leiks Grindvíkinga eftir brottflutning í nóvember, þar sem stemningin var gríðarleg og virtist gera Þórsstelpunum erfitt fyrir. Ef til vill var sá leikur einmitt prófið sem þær þurftu og gátu nýtt sér þegar komið var í Laugardalshöllina. 

Grindvíkingar náðu að vinna þriðja leikhlutann með fimm stigum og minnkuðu muninn í sex stig fyrir lokafjórðunginn. Stemningin var frábær allan tímann og von á rosalegri baráttu um sæti í sjálfum úrslitaleiknum. Og úr varð rosaleg barátta. Þær grindvísku gerðu sig líklegar til að jafna, en alltaf kom eitthvert svar frá Þórsstelpunum, sem héldu fimm stiga forystu og rúmlega það áfram og klukkan tifaði, tíminn vann með þeim á meðan Grindvíkingar reyndu allt hvað af tók að ná í skottið á Þórsurum.

Forysta Þórsara var sjö stig þegar rétt um mínúta var til leiksloka og Grindvíkingar tóku leikhlé. Lokamínútan varð spennandi, en stelpurnar stóðust prófið, sýndu mikla yfirvegun og héldu forystunni út leikinn, munurinn að lokum fjögur stig. Aðdáunarverð barátta og sigurvilji Þórsliðsins skiluðu þeim sigrinum þegar upp var staðið, gegn mjög sterku liði Grindvíkinga sem hefur á að skipa frábærum einstaklingum. 

Lore Devos skoraði mest Þórsara, 32 stig, Maddie Sutton var að venju öflug, skoraði 17 stig og tók 18 fráköst. Þá heldur hin kornunga Emma Karólína Snæbjarnardóttir áfram að heilla, en hún skoraði 12 stig í kvöld.

Helsta tölfræði Þórsara; stig, fráköst, stoðsendingar:

  • Lore Devos 32 - 12 - 2
  • Maddie Sutton 17 - 18 - 7
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 12 - 2 - 1
  • Eva Wium Elíasdóttir 9 - 6 - 3
  • Hrefna Ottósdóttir 5 - 1 - 2
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2 - 5 - 0
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 2 - 3 - 0

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina