Fara í efni
Þór

Að duga eða drepast fyrir Þór gegn Leikni

Egill Orri Arnarsson tekur í dag þátt í síðasta heimaleiknum með Þór áður en hann heldur til Midtjylland í Danmörku. Hann á að mæta til vinnu þar 1. júlí en Þórsarar leika ekki heimavelli aftur fyrr en 4. júlí, þegar Grótta kemur í heimsókn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fá Leiknismenn úr Reykjavík í heimsókn í Lengjudeildinni í knattspyrnu í dag. Flautað verður til leiks á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) klukkan 16.00.

Viðureign liðanna er sannkallaður botnslagur, eins og staðan er núna. Leiknir eru neðstur með aðeins þrjú stig úr sjö leikjum og Þórsarar í sætinu fyrir ofan – efra fallsætinu – með sex stig úr sex leikjum.

Til að allrar sanngirni sé gætt verður að nefna að Þórsarar eiga tvo leiki til góða á öll liðin í efri hluta deildarinnar og takist þeim að sigra í leikjunum tveimur skytust þeir upp í fjórða sæti. Það hljómar óneitanlega betur en að vera næst neðstur.

Leikirnir tveir sem hér um ræðir er annars vegar viðureign dagsins, hins vegar leikur við Grindvíkinga, sem frestað var í 6. umferð en fer fram 8. júlí.

Þór og Leiknir mættust fyrst í B-deild Íslandsmótsins sumarið 1996 og hafa síðan háð 25 hildi á þeim vettvangi. Þórsarar hafa unnið 13 sinnum, sjö leikir hafa endað með jafntefli og Leiknismenn fimm sinnum fagnað sigri. Þórsarar unnu heimaleikinn í fyrra 1:0 og Leiknismenn unnu sömuleiðis 1:0 á heimavelli sínum í Breiðholtinu.

Sveiflukenndar markaveislur

Þór og Leiknir hafa átt það til að bjóða upp í mikla markaleiki þegar liðin glíma. Skulu hér nefndir þrír óvenjulegir:

2009 – Leiknir - Þór 4:4

  • Leiknir hafði 3:0 forystu í hálfleik á heimavelli og komst í 4:0 snemma í seinni hálfleik. Þórsarar náðu engu að síður að jafna og leikurinn fór 4:4. Einar Sigþórsson gerði fyrsta mark Þórs á 78. mínútu, skoraði aftur á 86. mín., Hreinn Hringsson gerði þriðja markið þegar leikklukkan sýndi 89. mínútu og Einar fullkomnaði þrennuna, og tryggði Þór eitt stig, á þriðju mínútu uppbótartíma! 

2017 – Þór - Leiknir 3:3

  • Svipað var upp á teningnum og 2009 þegar liðin mættust á Þórsvellinum sumarið 2017, en með öfugum formerkjum. Þórsarar voru komnir í 3:0 eftir 26 mínútur með mörkum Guðna Sigþórssonar, Gunnars Örvars Stefánssonar og Lofts Páls Eiríkssonar en gestirnir jöfnuðu; skoruðu eitt mark í fyrri hálfleik, næsta mark kom á 69. mín. og jöfnunarmarkið rétt fyrri leikslok – 3:3.

2020 – Leiknir 3:3

  • Sumarið 2020 buðu liðin enn einu sinni upp sveiflukenndan markaleik, nú í Breiðholtinu. Leiknir komst í 3:0 seint í fyrri hálfleik, Jóhann Helgi Hannesson minnkaði muninn rétt fyrir hlé, og sjálfsmark Bjarka Aðalsteinssonar og mark Sigurður Marinós Kristjánssonar úr vítaspyrnu í seinni hálfleik tryggðu Þórsurum jafntefli, 3:3, og eitt stig. Sigurður Heiðar Höskuldsson, núverandi þjálfari Þórs, þjálfaði Leikni á þessum tíma.

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Þórs stýrir liðinu í dag gegn sínum gömlu félögum. Mynd: Skapti Hallgrímsson