Fara í efni
Það er alltaf þriðjudagur

Nýtt hlaðvarp: Það er alltaf þriðjudagur

Nýtt hlaðvarp er komið út og heitir: Það er alltaf þriðjudagur. Pétur Guðjónsson, umsjónarmaður og höfundur hlaðvarpsins, segir að þarna sé um að ræða þankabrot frá honum til þess að draga sig úr daglegu amstri en tekur þó fram að alls ekki sé um sjálfshjálparhlaðvarp að ræða.

Pétur, sem hefur starfað við leikhús, viðburði og fjölmiðla síðustu áratugi, hyggst taka fyrir eitt málefni í hverri viku og setur fram vangaveltur um það fyrir framan hljóðnemann.

Titill hlaðvarpsins vísar í hversdagsleikann því Pétur vill meina að þriðjudagar séu táknmynd hans. „Þetta er hálfgerður einkahúmor, setning í vinahópnum um okkur sem erum komnir á þann aldur að vera orðnir ráðsettir og hættir að djamma og djúsa. Alltaf hversdagur, ekkert djamm og alltaf þriðjudagur,“ segir Pétur og bætir við að þrátt fyrir þetta sjónarhorn verði aldrei langt í léttleika eða húmor.

Í fyrsta þætti er umfjöllunarefnið: álfar, menn, guð og draugar; hversu misjafnt það er hverju fólk trúir, að sumir séu auðtrúa og aðrir svo uppteknir að afsanna tilvist einhvers sem er yfirnáttúrulegt. Þar tekur Pétur sjálfan sig sem dæmi um miðaldra, verulega draug-hræddan mann. Ekkert er samt fullyrt um tilvist drauga en horfst í augu við að draugahræðsla getur verið ansi óþægileg. „Og hverju sem fólk trúir, þá er niðurstaðan sú að trúin er ekki það sem skiptir máli, heldur umburðarlyndið fyrir henni.“

Þættirnir munu koma út vikulega. Orðið hefur að samkomulagi að stuttur útdráttur og slóð þeirra birtist sama dag hér á Akureyri.net.

Smellið hér til að nálgast fyrsta þátt Péturs.