Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Kvenfélagið Hlíf

Í gær las ég hér á þessum vettvangi að Kvenfélagið Hlíf hefði verið aflagt. Sá merkilegi félagsskapur kom við sögu í lífi mínu strax í frumbernsku. Amma Emelía var Hlífarkona. Eitt sinn hitti hún félagssystur sína á förnum vegi sem hafði með málefni Pálmholts að gera. Amma notaði tækifærið og bað hana um pláss fyrir Svavar sinn á Pálmholti. Það kom flatt upp á blessaða félagssysturina því hún mundi ekki eftir öðrum Svavari en afa mínum og nafna. Fannst henni elliglöpin byrja óþarflega snemma hjá eiginkonu hans. Misskilningurinn leiðréttist og plássið fékk réttur Svavar sem átti marga dýrðardaga á Pálmholti.

Rúmum þrjátíu árum síðar ókum við hjónin í gegnum Dalvík. Við bæjarmörkin þar sat maður í kyrrstæðum bíl sem heilsaði mér afar virðulega. Ég svaraði í sömu mynt. „Hver var þetta?“ spurði konan. „Ég man ekki hvað hann heitir,“ svaraði ég, „en hann var með mér á Pálmholti.“ Það þótti konu minni það sniðugt svar að hún hló langleiðina til Akureyrar.

Sennilega hafa mín fyrstu afskipti af félagsmálum verið í þágu Kvenfélagsins Hlífar. Þá fékk amma mig til að ganga í hús Eyrinni og selja barmmerki félagsins. Mig minnir að það hafi verið gert á sumardaginn fyrsta.

Eitt sinn gaf amma mér pening til að fara á tombólu kvenfélagsins sem haldin var í Allanum. Ég keypti tvo miða. Annar þeirra færði mér aðalvinninginn, glæsilegan standlampa sem gæti hafa verið frá Tona frænda í Véla- og raftækjasölunni. Ég rogaðist með þennan veglega lampa yfir Eiðsvöllinn og út alla Norðurgötuna. Vakti sú ganga athygli vegfarenda ekki síst vegna þess að vinningurinn var ríflega helmingi hærri hróðugum vinningshafanum.

Um árabil var lampinn sannkölluð stofuprýði á æskuheimili mínu en langt er síðan hann hætti að gæða skammdegiskuggana og kvöldhúmið þar mjúkri birtu sinni.

Blessuð sé minning hans og Kvenfélagsins Hlífar.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00