Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Biðin, trúin og vonin náskyld fyrirbæri

Séra Svavar Alfreð Jónsson í Dómkirkjunni í gær. Ljósmynd: Logi Einarsson.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, predikaði í Dómkirkjunni í gær, við setningu Alþingis. Svavar hefur gefið Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta predikunina.

_ _ _ _

Hér í upphafi þessara hugleiðinga vil ég fá að óska okkur öllum til hamingju með að hinir kjörnu fulltrúar okkar, þingmennirnir, séu mættir til starfa á Alþingi. Þjóðin á þjóðþinginu mikið að þakka því þótt menn geti haft misjafnar skoðanir á því sem þar er rætt, hefur Alþingi Íslendinga tekið ótalmargar ákvarðanir sem hafa gert samfélag okkar mannúðlegra, réttlátara og frjálsara. Mætti þessu þingi auðnast að halda áfram á þeirri braut.

Biðin eftir þessum degi hefur verið löng og í dag langar mig að ræða það fyrirbæri, biðina. Að undanförnu hefur hún verið óvenju áberandi í þjóðlífinu. Við höfum beðið eftir þessari þingsetningu og bíðum enn eftir nýrri ríkisstjórn. Biðin eftir endalokum faraldursins hefur svo sannarlega reynt á þolrifin.

Biðin er á margan hátt erfitt hlutskipti. Þá líður tíminn, oft til einskis, því þau sem bíða geta gjarnan ekki mikið aðhafst. Biðin getur verið milli vonar og ótta; bjartsýn bíðum við góðu fréttanna en kvíðin ef von er ótíðinda. Við bíðum vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað verða mun. Við gerum áætlanir og ráðstafanir, við skipum niður og röðum upp, en erum líka öll óvissunnar og fallvaltleikans börn.

„Enn sá ég undir sólinni að hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu, né hetjurnar stríðinu, né eiga spekingarnir brauðið víst, né hinir hyggnu auðinn, né hinir vitru vinsældir því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir,“ 

segir í bók Prédikarans.

II

„Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn,“

yrkir Megas í kvæði sínu Tvær stjörnur.

Tími biðarinnar getur verið fljótur að líða og í rykið sem þar nær að safnast má skrifa eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli - svo notað sé orðfæri skáldsins í sama ljóði.

Þar birtist sú hugsun að biðin sé ekki bara neikvætt fyrirbæri heldur á einhvern hátt dýrmæt.

Bið er ekki endilega aðgerðarleysi. Biðin krefst einbeitingar. Þau sem bíða þurfa að halda vöku sinni eins og áréttað er í ritningartextum aðventunnar. Biðin getur verið fljótari að líða en við höldum enda kemur fyrir að við missum af því sem við biðum eftir.

Biðin á sér oft eitthvert ákveðið viðfang. Hún beinist að því sem við bíðum eftir, hvort sem það er von eða ótti. Franski heimspekingurinn Jacques Derrida fjallaði um biðina. Hann gerði greinarmun annars vegar á bið eftir því sem við höfum hugmyndir um hvað sé - eins og þegar við bíðum jólanna - og hins vegar að bíða þess sem við getum ekki vitað neitt um. Þessi seinni tegund biðar felst í því að vera opin fyrir framtíð sem er okkur alveg hulin.

Í báðum tilfellunum krefst biðin trausts og ekki síður ef við bíðum með því að opna á það óþekkta. Í biðinni verðum við alltaf með vissum hætti að treysta framvindunni, leggja árar í bát og láta straumana og vindana bera okkur. Við bíðum í biðröðinni, troðum okkur ekki framar í henni heldur treystum því að röðin komi að okkur og að biðin beri með einhverjum hætti árangur.

Biðin er í þeirri von og trú að ekki sé til einskis beðið.

II

Biðin, trúin og vonin eru náskyld fyrirbæri. Í guðspjallinu er Jesús spurður um fyrirkomulag hjúskaparmála í hinum komandi heimi, spurning sem sennilega átti að veiða hann í gildru. Jesús svarar með því að segja, að í himnaríki verði ekkert slíkt kerfi og öll hjúskaparlög úrelt, himneski veruleikinn verði allt öðru vísi en sá jarðneski og önnur lögmál þar í gildi.

„Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda,“ segir Jesús í svari sínu.

Margir halda að hin trúarlega von beinist að heimi handan þessa veruleika og eigi fyrst og fremst við um hugsanlegt líf eftir þetta líf. Svo er ekki. Kenningar Jesú snúast mest og helst um hvernig við komum fram hvert við annað hér í þessum veruleika en ekki um skipulag hjúskapar í himnaríki eða arkitektúr innan Gullna hliðsins. Hin kristna von getur gefið kraft til að gera þennan heim betri og breyta lifandi manneskjum og samfélögum þeirra, jafnvel bylta þeim ef þörf er á.

Það að bíða er að opna fyrir því sem er að koma í framtíðinni, eins og Derrida bendir á. Aðventan, heiti þess tíma kirkjuársins sem nú er að hefjast, þýðir koma. Þegar við bíðum opnum við á það sem er að koma og er framundan. Við undirbúum okkur fyrir að þiggja, gerum okkur móttækileg fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér þannig að við getum notið gjafa hennar og tekist á við verkefni hennar.

Þannig er best að taka á móti nýjum tíma og þess vegna er andlegur þroski ekki síst í því fólginn að kunna að bíða.

IV

Biðin og trúin eru systur. Óttinn er þeirra helsti og skæðasti óvinur. Hann er einn af drifkröftum neyslusamfélagsins.Við erum látin kaupa hluti með því að ala á ótta okkar. Það er áberandi í auglýsingaflóðinu öllu sem á okkur skellur þessa daga og vikur þar sem hin undirliggjandi skilaboð eru, að öll þessi ósköp þurfi maður að eignast ef jólin eigi að geta komið.

Þess vegna fyllast margir sálarangist í aðdraganda jólanna. Fólk óttast að geta ekki staðið undir efnislegum og tilfinningalegum væntingum hátíðarinnar.

Og þótt ég bendi á það elska ég gjafir, veislur og annað tilstand sem á sinn þátt í að búa til jólin - því mál hafa fleiri en eina hlið og oftast miklu fleiri en tvær, svo enn sé vitnað til heimspeki Derrida.

Hann varaði við þeim mikla flýti sem er oft á umfjöllun um hin ýmsu mál í samtímanum og hefur í för mað sér að jafnvel flóknustu úrlausnarefni eru ofureinfölduð, umræðan verður yfirborðskennd og aðeins rædd þau sjónarmið sem mest í gegn gangast.

Til að hægt sé að ræða mál af viti þarf að bíða með að draga ályktanir og fella dóma þangað til hin ýmsu sjónarhorn og viðhorf hafa komið fram.

Yfirvegunin og biðlundin er því ein forsenda heilbrigðrar skoðanamyndunar - þótt líka séu til mál sem ekki þola neina bið.

Dægurflugan lifir aðeins einn dag og lífið er svo stutt að þar má ekki eyða tímanum í bið.

„Skref fyrir skref
færumst við nær
dauðanum“

segir Vilborg Dagbjartsdóttir í einu ljóða sinna.

 

Sífellt styttist tíminn okkar og okkur finnst um að gera að njóta sem mests og koma sem flestu í verk áður en það verður of seint.

Og það er alveg satt – en hitt er jafnsatt að í óttanum og asanum er enginn tími fyrir hina heilnæmu og þroskandi bið.

 

Ljóð Vilborgar endar á þessum orðum:

„Á hverju kvöldi
hvísla ég glöð
út í myrkrið:
Enn hefur líf mitt
lengst um heilan dag.“

 

Biðin á sér aðeins rými í trúnni, traustinu og þakklætinu þar sem við í óttaleysi verðum móttækileg fyrir blessandi áhrifum nýrra tíma.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Takið postullegri blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. Amen.

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00