Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Atferlisfræði laufabrauðsgerðar​

Lengi var það fastur liður í aðventuhaldi fjölskyldunnar að skreppa út í Svarfaðardal og gera laufabrauð þar með tengdaforeldrum mínum. Gjarnan var valinn til þess hagstæður laugardagur. Þessar árlegu samverur voru alveg ómissandi í aðdraganda jólahátíðarinnar.

Væri ég ekki kominn í rétta laufabrauðsskapið þegar eknir voru Hrísamóarnir og skrautljósin birtust á bæjunum í öndvegi íslenskra dala, helltist það yfir mig um leið og jólabarnið tengdapabbi minn – blessuð sé minning hans – tók fagnandi á móti okkur í dyrunum á Laugabrekku og gekk á undan okkur inn í fallega húsið þeirra Fjólu tengdamömmu, blístrandi eða syngjandi jólalög. Hún var að stússa í eldhúsinu þar sem allt var til reiðu; reynslumikil skurðarbrettin á elhúsborðinu, rúnum rist eftir margra áratuga laufabrauðsskurð, hnífar af allskonar stærðum, brugðnir brandar til alls líklegir og á borðinu miðju einmana laufabrauðsjárnið. Stæður af óskrifuðum laufabrauðskökum lágu þolinmóðar á eldhúsbekknum og væntu þess að skapandi skurðarfólk breytti þeim í listaverk, líkt og strigi strengdur á ramma þráir að finna fyrir pensli málarans.

Samkoman fór fram samkvæmt óskrifuðum reglum hefðarinnar. Brettin voru hin sömu ár eftir ár, hnífarnir líka og skurðarjárnið aðeins brúkað þennan eina dag ársins. Sami potturinn var notaður til að steikja í brauðið og sami hlemmurinn til að slétta úr kökunum þegar þær höfðu verið veiddar fölbrúnar upp úr ólgandi feitinni. Þegar maður leit upp frá skurðinum út um einhvern fjölmargra glugga litla eldhússkálans blasti við sami gamli Stóllinn, Gljúfrárjökull var á sínum stað í botni Skíðadals og Vellir, Hánefsstaðareiturinn og Rimar handan ár. Utar í dalnum gladdi Tjarnarkirkja augað, umvafin logandi leiðaljósum en yst gnæfði tignarleg fjallaröð Látrastrandar, uppstillt í sínum hvítu og bláu litum, alla leið út í fjarðarkjaft.

Hvert sinn sem fjölskyldan hittist til að skera út laufabrauð sá tengdafaðir minn um tónlistina sem ómaði undir skurðinum og tryggði réttu stemminguna. Hún var svo mikilvægur þáttur í þessari samkomu að ekki mátti hætta á neitt. Aðeins var valin músík sem örugglega hæfði tilefninu og ekki mátti taka neina sénsa í þeim efnum. Þess vegna dustaði Björn Daníelsson rykið af gömlum vínilplötum sem hann vissi að væri treystandi og setti þær á fóninn á þessum sérstaka degi, því þessi siður var mörgum sinnum eldri en geisladiskar og streymistónlist. Glansandi plastið snérist undir nálinni, sumar plöturnar jafn lífsreyndar og rispaðar og skurðarbrettin sem jók enn á sjarma og karakter tónlistarinnar.

Laugabrekka í Svarfaðardal

Þýski hljómsveitarstjórinn og útsetjarinn James Last var meðal þeirra örfáu sem stóðst strangar kröfur tengdaföður míns um boðlega laufabrauðsmúsík. James (sem fékk nafnið Hans við fæðingu og öðlaðist síðar tignarheitið „konungur lyftutónlistarinnar“) hafði um margra ára skeið létt okkur vinnuna við laufabrauðsskurðinn og verið dýrmætur hluti þess vinnuumhverfis. Lúðrablásturinn þýði, dúnmjúkar strengjastrokurnar og hátíðlegur bjölluslátturinn í bland við skraf okkar laufabrauðsfólksins og pikk útflúraðra kakna var hin rétta og sanna hljóðvist þessa dags.

Jólaplötuna með James Last heyrðum við aðeins þetta eina skipti á árinu, rykuga og hoppandi á rispum en hún var alla jafna spiluð oftar en einu sinni. Tónlistin fyllti mann nostalgíu töfrandi minninga fyrri jóla og aðdraganda þeirra.

Einn útskurðardaginn höfðum við hlustað nokkrum sinnum á plötuna með James Last þegar uppgötvaðist fyrir hreina hendingu að plötusnúðurinn hafði óvart spilað hana á 45 snúningum í stað þeirra 33ja sem hún var ætluð fyrir (tölurnar standa fyrir RPM, fjölda snúninga plötunnar á fóninum á hverri mínútu). Var tónlist hljómsveitarstjórans þýska því töluvert hraðari en til var ætlast, lúðrablásturinn gustmeiri, strengjastrokurnar harðari og bjölluslátturinn hvellari án þess að það raskaði ró þeirra sem skáru út kökurnar eða að nokkur grunur kviknaði um að ekki væri allt með felldu.

Lengi hafa menn velt því fyrir sér hvort það hafi verið tilviljun að þetta tiltekna ár gekk laufabrauðsgerð fjölskyldunnar í Laugabrekku óvenju greiðlega fyrir sig.

Fyrir nokkru tóku talnaglöggir grúskarar í ættinni sig til, fundu út meðaltíma allra ára á útskurði hverrar laufabrauðsköku á þessum samverum og báru saman við tímann sem tók að skera út hverja köku þennan ákveðna laugardag.

Niðurstaða þeirra var sú, að umreiknað hefði hröðunin á útskurði laufabrauðs í Laugabrekku það skiptið jafngilt muninum á þrjátíu og þremur snúningum og fjörutíu og fimm, eða tólf snúningum alls.

Svavar Alfreð Jónsson er sóknarprestur í Akureyrarkirkju

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00