Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Sjór gekk yfir garð við Strandgötu

Skemmtilegt samspil í veðrinu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Sjór gekk á land, yfir varnargarða við Strandgötu um hádegisbilið í dag í sunnan eða suðvestan roki sem nú gengur yfir norðanvert landið. Dóri Ká, eða Halldór Kristinn Harðarson eins og hann heitir fullu nafni, birti myndband á TikTok upp úr hádeginu þar sem hann var að koma úr hádegismat og á leið í bílinn sinn sem lagt var við Strandgötuna, austan Hjalteyrargötu. 


Þrjú skjáskot úr TikTok-myndbandi Dóra Ká sem hann tók upp framan við Vitann og Verkstæðið um hádegisbilið í dag.

Þegar tíðindamaður frá Akureyri.net mætti í Strandgötuna nokkru eftir hádegi var stund milli stríða, nokkuð hægur vindur, en sást á götum og gangstéttum að þar hafði sjór gengið yfir. Ekki virðist þó hafa verið um mikið magn að ræða, en flæddi þó inn á Strandgötuna, beggja megin Hjalteyrargötu, bílastæði við Strandgötuna og eitthvað inn í Kaldbaksgötu miðað við ummerki, en vatnið hafði þó að mestu runnið burt aftur þegar myndirnar hér að neðan voru teknar. Við dyr Vitans og Verkstæðisins mátti þó sjá að þar höfðu húsráðendur gert ráðstafanir þegar hádegistörninni lauk.


Ekkert rigndi á Akureyri í dag, en Strandgatan þó vel blaut eftir að sjór gekk þar yfir garðinn skömmu eftir hádegið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Húsráðendur í Vitanum og Verkstæðinu búnir að gera ráðstafanir eftir að hádegisösinni lauk. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Fegurðin er ekki aðeins í góða veðrinu. „Óveður“ geta glatt augað þó stundum valdi þau tjóni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Það er alltaf glæta einhvers staðar. Mynd: Haraldur Ingólfsosn.


Einmana rekaviður reynir landtöku en mannanna verk verja landamærin. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Þessi mörk við Bogann studdu sig við girðinguna um hádegisbilið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Hvert fara laufblöðin á haustin? Mynd: Haraldur Ingólfsson.