Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Hvassviðri gengur yfir í dag og á morgun

Félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, að störfum við auglýsingaskiltið á lóð Glerártorgs undir kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Það gengur á ýmsu í veðrinu þessa dagana, sumarhiti seint í gærkvöldi, hvassviðri sem gengur yfir landið í dag og á morgun og svo í framhaldi von á norðanskoti og hríðarveðri á föstudag.

Hávaðarok hefur verið á Akureyri frá hádegi í dag. Spáin gerir ráð fyrir enn sterkari vindi í nótt og síðan álíka roki og var í dag, a.m.k. til hádegis á morgun.

Félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, komu víða við í dag ásamt lögreglu og slökkviliðsmenn voru einnig kallaðir út. Þakplötur losnuðu á húsi í Hagahverfi, trampólín fuku hér og þar og einnig svokallaðir lausamunir. Þá var gripið til þess ráðs að losa allan LED panel af stóru auglýsingaskilti við verslunarmiðstöðina Glerártorg þar sem plötur voru að losna.


Staðan á Norðurlandi eystra kl. 20 í kvöld. Skjáskot af vedur.is.

Aðalsteinn Pálsson, starfsmaður Glerártorgs, segir mildi að starfsmenn LED birtinga, sem settu stóra auglýsingskiltið upp á sínum tíma, voru að störfum í mathöllinni á Glerártorgi í dag og áttuðu sig á því hvað var að gerast. Því var hægt að koma í veg fyrir að plötur losnuðu af skiltinu og fykju burt. „Þetta er frábært fólk sem við eigum, björgunarsveitarfólkið, lögreglan og slökkviliðið. Ég vil koma miklu þakklæti á framfæri til þeirra,“ sagði hann við Akureyri.net.

Félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri og lögreglumenn að störfum við Glerártorg undir kvöld.

Veðurstofa Íslands gaf út gula veðurviðvörun fyrir allt landið vegna öflugrar lægðar sem gengur yfir landið frá suðvestri til norðausturs. Spáin sem gildir frá kl. 15 í dag fram til kl. 18 á morgun gerði ráð fyrir varasömu ferðaveðri, hvössum suðvestanvindi, 15-23 m/s og vindhviður yfir 35 m/s og varasamt að vera á ferð á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi, eins og það er orðað í viðvöruninni.

Hitinn á Akureyri hefur verið á bilinu 7-16 gráður, en veðurathugunarstöðin við Krossanesbraut hefur reyndar ekki mælt vind nema upp á 8-14 metra á sekúndu að jafnaði í dag, en þó mest upp í 28-29 metra á sekúndu kl. 17-18.