Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Vonskuveður þar til snemma í fyrramálið

Ljómandi gott veður var á Akureyri í morgun en það var sannarlega lognið á undan storminum; upp úr klukkan 10 versnaði veðrið snögglega, kólnaði og það tók að snjóa og hvessa. Vindur nú í hádeginu er 12 metrar á sekúndu en fer í 19 metra í hviðum.

Appelsínugul viðvörun Veðurstofunnar tekur gildi klukkan 14.00 í dag og gildir til klukkan 6.00 í fyrramálið.

  • HVAÐ ÞÝÐIR APPELSÍNUGUL VIÐVÖRUN?
    Á vef Veðurstofunnar segir: Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum, tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin.

Norðvestan hvassviðri eða stormur verður í dag, 18 til 23 metrar á sekúndu með snjókomu og lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður, segir Veðurstofan.

Mörgum er í fersku minni þegar sjór gekk á land í ofsaveðri fyrir tveimur árum og olli miklu tjóni á Oddeyri, einkum við Strandgötu og Kaldbaksgötu. Viðbragðsaðilar eru í startholunum nú og í gær hreinsuðu starfsmenn Hreinsitækni niðurföll á Eyrinni í gær fyrir Norðurorku. Sjávarstaða verður hæst á milli klukkan 22 og 23 í kvöld, mikil hætta er talin á að sjór gangi á land og hafi eigendur húsa reynt að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða lágmarka tjón.

Starfsmenn Hreinsitækni hreinsa niðurföll í Kaldbaksgötu í gær. Þar varð mikið tjón fyrir tveimur árum – neðri myndin er tekin við Kaldbaksgötu þá.

FÆRÐ Á VEGUM

  • Óvissustig er á veginum um Öxnadalsheiði frá kl. 12.00. Komið getur til lokana með stuttum fyrirvara.
  • Hálka eða hálkublettir og éljagangur er á flestum öllum leiðum á Norðausturlandi.
  • Óvissustig er frá kl. 13.00 bæði á Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Komið getur til lokana með stuttum fyrirvara.