Fara í efni
Skapti Hallgrímsson

Af dægurlagatextum

HUGSAÐ UPPHÁTT

Eftirfarandi er hluti pistils sem birtist fyrst í Morgunblaðinu fyrir 23 árum, 8. ágúst 2001, að lokinni verslunarmannahelgi, í dálki sem kallaðist Viðhorf og ofanritaður skrifaði vikulega. Textinn á erindi við nútímann ekki síður en við lesendur um aldamótin en textar af þessu tagi eru blessunarlega ekki samdir í dag eftir því sem næst verður komist.
_ _ _

Akureyringar brydduðu upp á þeirri nýjung að stunda fjöldasöng á íþróttaleikvangi bæjarins á sunnudagskvöldið. Fjöldi fólks mætti og tók lagið í myrkrinu, og undirritaður hóf m.a. upp raust sína. Tók undir þegar hvert lagið af öðru hljómaði og fór allt í einu að hugsa um söngtextana; fólk á öllum aldri sat sem sagt þarna eða stóð, og söng um fyllirí, kvennafar, framhjáhald og annað þjóðlegt.

Mikið lifandis, skelfingar ósköp er gaman að vera svolítið hífaður, söng ég – bláedrú og með yngstu dóttur mína í fanginu, í stúku íþróttavallarins.

Það sæmir mér ekki sem Íslending, sungum við líka, að efast um þjóðskáldsins staðhæfing, og söngvararnir voru allir sammála um að vilja ekki skrælna úr þurrki og því vökvuðu þeir lífsblómið af og til. Í framhaldinu er greint frá því að sú skoðun þekkist og þyki fín, að þetta vort jarðlíf sé ekkert grín, menn eigi að lifa hér ósköp trist og öðlast í himninum sæluvist. Þess vegna er tekið út forskot á sæluna, því fyrir því fæst ekkert garantí að hjá guði ég komist á fyllirí!

Svona eftir á að hyggja trúi ég því varla að hafa sungið þetta!

Harðsnúna Hanna hélt við hann Gvend, kyrjaði maður hástöfum hér í eina tíð þegar sú merkilega hljómsveit Ðe Lónlí Blú Bojs var vinsæl.

Og hvað er um að vera í Kötukvæði? Það var um kvöld eitt að Kötu ég mætti. Hún var að koma af engjunum heim. Þetta var fyrsti fundur þeirra; hann segist að minnsta kosti aldrei hafa séð hana fyrr. Hann tók hlýtt í hönd á Kötu, horfði í augun djúp og blá. Þau gengu burt af götu og náttmyrkrið geymdi þau.

En þegar eldaði aftur og birti í hjarta ákafan kenndi ég sting, og fyrir augum af angist mér syrti. Hún var með einfaldan giftingarhring.

Þetta sungum við líka, ég og þúsundir annarra á Akureyrarvelli og klappað var fyrir forsöngvurunum. Einhvern tíma hefði svona nokkuð verið kallað framhjáhald.

Anna litla er einnig afar athyglisvert kvæði:

Anna litla, létt á fæti – Eins og gengur, eins og gengur, segir svo í viðlaginu sem margur Íslendingurinn hefur sungið á góðri stundu – lagði af stað í berjamó. Þar sátu fjórir ungir, sætir sveinar á grænni tó. Einn af þeim var ósköp feiminn en kyssti Önnu þó. Annar talsvert áræðnari, af Önnu skýlu og svuntu dró. Sá þriðji enn meiri hugdirfð hafði og um hana í mjúkri lautu bjó. „Eitthvað fékk sá fjórði að gera nú finnst mér vera kveðið nóg,“ segir í sjötta erindinu, og í því sjöunda: „Því hvað hann gerði ef vissir, væna þú vildir strax í berjamó.“

Gætu vondir menn jafnvel haldið því fram að þarna hefði átt sér stað hópnauðgun? Eða var Anna bara svona lausgyrt? Og hvað með Því hvað hann gerði ef vissir, væna þú vildir strax í berjamó? Eruð þið ekki ánægðar með þetta, stelpur?

Og svo er það hún Sigga Geirs, sem sexappíl hefur flestum meira. Hlýtt og notalegt er hennar ból hverjum sem býður hún næturskjól.

Það vita: Kalli Jóns og Gústi læknisins og Nonni Sæmundar og Halli rakarans og Fúsi Sigurleifs og Palli á Goðanum og Denni í Efstabæ - og einnig ég.

Sigga þessi blessunin eignast svo krakka í kvæðinu og sagt er að prestinum hafi brugðið þegar hún skyldi tilnefna barnsföður, og nefndi alla þá sem áður er getið. Yfirvöld urðu að skera úr og sögumanni er dæmdur snáðinn – en hinir skunda kátir á næsta bar!

En að sögumanni læðist þó stundum efi, þegar hann lítur litla skinnið: Hann líkist Kalla Jóns og Gústa læknisins og Nonna Sæmundar og Halla rakarans og Fúsa Sigurleifs og Palla á Goðanum og Denna í Efstabæ – en ekki mér!

Ekki er hægt að skilja Einsa kalda úr Eyjunum útundan. Það var karl í krapinu; hann var innundir hjá meyjunum, þær slógust um hann á Spáni, í Þýskalandi vildu þær allar eiga hann og austur á fjörðum báðu þær hans einar fimm. Það er sama hvar hann drepur niður fæti, meyjarnar bíða alls staðar spenntar, en hugsi þær um hjónaband í hasti ég flý í land. Vonandi að svo lauslátur náungi, og Hönnur, Önnur og Kötur dagsins í dag, hafi að minnsta kosti haft vit á að fjárfesta í smokkum. Sigga Geirs gleymdi því og að minnsta kosti einhverjir þeirra gaura sem hún bauð næturskjól.

Atti katti nóa Atti katti nóa emissa demissa dolla missa dei...

Skapti Hallgrímsson er ritstjóri Akureyri.net

Framúrskarandi Gaukshreiður

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. febrúar 2024 | kl. 10:00

Líkhús – Bistro

Skapti Hallgrímsson skrifar
14. nóvember 2023 | kl. 14:00