Fara í efni
Samherji

Drift EA – Hönnun í anda hússins en þó nútímaleg

Frumkvöðla og nýsköpunarmiðstöðin Drift EA opnar fljótlega í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg.

Það styttist í að Drift EA, miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi, taki formlega til starfa í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg. Breytingar á þriðju og fjórðu hæð hússins eru nú í fullum gangi en stefnt er að því að fyrstu notendur geti nýtt sér aðstöðuna í lok október.

Eins og Akureyri.net hefur áður sagt frá var Drift EA, frumkvöðla- og nýsköpunarfélag stofnað af Samherjafrændunum Kristján Vilhelmssyni og Þorsteini Má Baldvinssyni. Félagið hélt fjölmennan og vel heppnaðan kynningarfund á Akureyri í maí þar sem starfsemin var vel kynnt.

Á þriðju hæðinni verður vinnuaðstaða fyrir frumkvöðla sem njóta aðstoðar kjarnateymis við að koma hugmyndum sínum áfram. Teikning: Jenszon hönnunarhús

Aðstaða fyrir 25 frumkvöðla og kjarnateymi

Blaðamaður Akureyri.net fékk nýlega að ganga um húsnæðið sem Drift EA er að koma sér fyrir í. Um er að ræða um 600 fm á tveimur hæðum á þriðju og fjórðu hæð við Strandgötu 1. Á þriðju hæðinni verður Hlunninn (Incubator) að finna, sem er aðstaða fyrir um 25 frumkvöðla sem fá stuðning í ýmsu formi við að koma sinni hugmynd/fyrirtæki áfram. Þar verður einnig aðstaða fyrir kjarnateymi sem aðstoðar frumkvöðlana, en fólk í kjarnateyminu kemur bæði frá Háskólanum á Akureyri sem og frá hinum ýmsu fyrirtækjum í bænum. Þá eru á hæðinni næðisrými, fundaraðstaða og hugarflugs herbergi með hengirólu, jógadýnum o.fl. en hugsunin með hugarflugsherberginu er sú að frumkvöðlar geti staðið upp frá skjánum og fundið sköpunarkraftinn aftur í öðru umhverfi.

Við reyndum að halda tryggð við húsið með því að halda í gamla tímann en á sama tíma er þetta frumkvöðlasetur þar sem verið er að vinna með nútímann og framtíðina, svo ætli það megi ekki segja að við séum að reyna að nútímavæða gamla stílinn

Í þessu rými á fjórðu hæð hússins verður samkomustaður og vinnuaðstaða sem kallast Messinn. Framkvæmdir ganga vel og er stefnt að því að fyrstu notendur geti komið inn í húsið í lok október. 

Í þessum anda verður Messinn fullkláraður. Hægt er að kaupa aðgangsáskrift á heimasíðunni driftea.is Teikning: Jensson hönnunarhús 

Vinnuaðstaða og samfélag fyrir skapandi fólk

Á fjórðu hæðinni verður Messinn til húsa sem verður samkomustaður og vinnuaðstaða fyrir fólk sem vill vera hluti af skapandi samfélagi. Þar verður reglulega boðið upp á ýmsa fræðandi viðburði sem höfða bæði til fyrirtækja og skapandi einstaklinga. Sótt er um aðild bæði að Messanum og Hlunninum á heimasíðunni driftea.is. Áhugaverðar hugmyndir verða valdar inn í Hlunninn og komast eins og áður segir ekki fleiri en 25 frumkvöðlahugmyndir þar að í einu. Í Messann geta hins vegar bæði fyrirtæki og einstaklingar sótt um aðgangs aðild. Aðildin veitir m.a aðgang að deiliskrifborðum, fundaraðstöðu, tengslaneti og viðburðunum. Þá verður líka bar í Messanum. Messinn er því hugsaður fyrir fólk sem er t.d. í starfi án staðsetningar og þráir innblástur annað slagið.

Frá þriðju hæðinni. Vínilflísar í fiskibeinamynstri á gólfum, breiðir gólflistar og skrautlistar á veggjum ýta undir virðuleika húsnæðisins og minna á gamla tímann. 

Hönnunin í anda hússins en þó nútímaleg

Eins og áður segir er verið að aðlaga hæðirnar að áðurnefndri starfsemi en rýmið hýsti áður starfsemi Landsbankans. Að sögn Sesselju Barðdal Reynisdóttur, framkvæmdastýru Driftar EA, eru breytingarnar metnaðarfullar og vel vandað til verka t.d. hvað hljóðvistina varðar. Innanhússhönnunin var í höndum Guðbjargar Önnu Árnadóttur, innanhússhönnuðar og Jensson hönnunarhúss, sem staðsett er á Akureyri og er í eigu Ólafs Jenssonar, innahúss arkitekts og lýsingarhönnuðar. Guðbjörg kom t.d að endurhönnun á Landsbankahúsinu á Selfossi sem hýsir nú vinnustofuna Bankann.  Hönnunin á Drift EA er í senn nútímaleg en á sama tíma virðuleg í anda hússins, sem var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. „Við reyndum að halda tryggð við húsið með því að halda í gamla tímann en á sama tíma er þetta frumkvöðlasetur þar sem verið er að vinna með nútímann og framtíðina, svo ætli það megi ekki segja að við séum að reyna að nútímavæða gamla stílinn,“ segir Ólafur aðspurður um áherslurnar í hönnunni.

  • Nánar verður rætt við Sesselju Barðdal, framkvæmdastýru Driftar EA á næstu dögum á Akureyri.net, þar sem hún segir betur frá starfseminni og tækifærunum sem þessi miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Norðurlandi býður upp á.