Fara í efni
Samherji

Baldvin Z fer yfir málin í Messanum

Komið og hlýðið á reynslusögu eins fremsta leikstjóra þjóðarinnar um áskoranir, sigra og næstu skref á ferli hans, segir í tilkynningu frá DriftEA, en Akureyringurinn og kvikmyndaleikstjórinn Baldvin Zophoníasson (Baldvin Z) ætlar að halda erindi, á morgun, fimmtudaginn 13. febrúar kl. 17, í Messanum. 

Frá Aksjón til Hollywood

Fyrirlestur Baldvins verður sá fyrsti í í fyrirlestraröðinni Toppurinn í Messanum. Í tilkynningu segir að Baldvin muni deila með gestum, sinni einstöku vegferð frá því að vera í upptökumálum á Aksjón á Akureyri í það að verða í fremstu röð íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Hann er þekktur fyrir verk eins og Órói, Vonarstræti, Lof mér að falla og sjónvarpsþættina Rétt, Ófærð og Svörtu sanda.
 
Þessi viðburður er öllum opinn án endurgjalds. Léttar veitingar í fljótandi formi verða til sölu á staðnum. Það er þó vakin athygli á því að það þarf að skrá sig.
 
 

Messinn er á efstu hæð Landsbankahússins. Mynd RH
 

Skapandi samfélag í Messanum

En hvað er Messinn? Það er nýr skapandi samfélagsvettvangur, á efstu hæðinni í Landsbankahúsinu, á fjórðu hæð í Strandgötu 1 við Ráðhústorg. „Þetta er staður fyrir alla sem vilja vinna í lifandi og hvetjandi umhverfi,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri DriftarEA. „Til dæmis frumkvöðla, listafólk, fjarvinnslustarfsfólk, námsmenn eða aðra sem sækjast eftir öflugu tengslaneti og skapandi andrúmslofti.“

 

Það er hlýlegt um að lítast, en oft er safnast saman fyrir framan kaffivélina, eins og vill gerast. Myndir RH

„Messinn er hugsaður sem miðstöð sköpunar og nýsköpunar þar sem fólk getur unnið að verkefnum sínum í hvetjandi umhverfi,“ segir Sesselja. „Við leggjum sérstaka áherslu á að laða að fólk úr skapandi greinum og með aðild sinni styður fólk beint við uppbyggingu á öflugu nýsköpunarsamfélagi á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.“

„Aðstaðan býður upp á sveigjanlegt vinnurými, fundarherbergi og næðisrými, ásamt aðgangi að fjölbreyttum viðburðum og ráðgjöf,“ segir Sesselja. „Tvenns konar aðild er í boði sem henta ólíkum þörfum, frá 15.000 kr. á mánuði.“

Nánari upplýsingar um aðild og aðstöðu má finna á vefsíðu Messans.