Fara í efni
Sagnalist

Ó, það er svo dásamlegt að vera á Akureyri

Jane Goodell (lengst til vinstri) með tveimu starfssystrum úr ARC á skemmtun fyrir setuliðsmenn á Íslandi. Myndin er úr bókinni They sent me to Iceland.
  • Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist. Þetta er fimmta grein Brynjars Karls. Hér rifjar hann upp frásögn bandarískrar konu sem kom til Íslands í Síðari heimsstyrjöldinni á vegum ameríska Rauða krossins í því skyni að skemmta bandarískum hermönnum.

Jane Goodell hafði komið víða við áður en hún kom til Íslands. Hún hafði m.a. starfað sem tónlistarkona í Boston, ferðast um Evrópu og unnið sem flugvallarstarfsmaður. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út bauð Goodell fram starfskrafta sína hjá ameríska Rauða krossinum (ARC). Í desember 1941 lagði hún af stað í leiðangur til Íslands ásamt fámennum hópi starfsmanna Rauða krossins. Siglingin var merkileg. Þarna var um fyrsta hópinn frá ARC var að ræða sem sendur var frá Bandaríkjunum til að skemmta amerískum setuliðsmönnum í seinni heimsstyrjöldinni. Um borð í SS Borinquen voru einnig nokkur hundruð bandarískir hermenn. Skipið lagðist við höfn í Reykjavík þann 25. janúar 1942. Hófst þá þegar vinna Rauðakross-kvenna við að bæta tómstundaaðstöðu setuliðsmanna hér á landi og tryggja aðgengi þeirra að afþreyingu.

Eftir að hagur bandarískra setuliðsmanna í Reykjavík vænkaðist kom upp hugmynd að taka tómstundamiðstöð í notkun á Akureyri fyrir setuliðið þar. Jane og þrjár starfssystur hennar fengu það hlutverk að fara norður til Akureyrar í nokkra daga sumarið 1942 til að kanna aðstæður og hvort grundvöllur væri fyrir því að koma slíkri hugmynd í framkvæmd. Árið 1943 kom út bókin They sent me to Iceland. Í bókinni lýsir Jane Goodell siglingunni til Íslands og vistinni hér á landi, þ.m.t. upplifun af dvölinni á Akureyri. Dagblaðið Tíminn birti þýðingu á bókinni í skömmtum árið 1965. Sagnalist skráir frásögn Jane Goodell af Akureyrarheimsókninni og miðlar til lesenda. Gefum Jane Goodell orðið.

„Tveir yfirmenn tómstundastarfsins, Frank Hagan og Lake Russel, sem farnir voru að hafa áhyggjur af því hvað lítið var gert, ákváðu nú að slá tvær flugur í einu höggi. Rætt var um að Akureyri, annar stærsti bærinn á Íslandi, yrði miðstöð tómstundastarfsins fyrir þá hermenn, sem staðsettir voru í þeim landshluta. Líta varð yfir staðinn, með þetta í huga. Hvers vegna ekki að taka með sér þangað fjórar stúlkur, síðan hinar, í önnur ferðalög, þar til allar hefðu fengið tækifæri til þess að lyfta sér eitthvað upp og breyta til?

Þetta var álitin fyrirtaks hugmynd. Doris, Betsy Lane, Cam og ég urðum fyrir valinu í þessa fyrstu ferð. Að hugsa sér, að óþægilegt ferðalag yfir ekki meira en fimm hundruð kílómetra veg, og sem ekki átti að taka meira en viku, skyldi verða til þess að vekja hjá okkur tilhlökkun, sem ekki hefði verið meiri þótt við hefðum verið að leggja upp í ferð í kringum hnöttinn! Það hljómaði hlægilega og barnalega. En einnig á þennan hátt hafði mat okkar á hlutunum, breytzt á þeim sex mánuðum, sem liðnir voru frá því við komum til landsins.

[…]

Miklum hluta ferðarinnar eyddum við í að reyna að koma bílnum yfir óslétta fjallavegina. Þeir eru aðeins opnir frá því í júní og fram í október. Sjö mánuði af árinu fer öll umferð til og frá Akureyri fram með strandferðaskipunum. Íslenzkir áætlunarbílar þutu fram úr okkur á beinu köflunum og voru að vinna upp tímann sem fór í að sniglast upp fjallshlíðarnar. Við vorum glöð yfir að þurfa ekki að ferðast með þessum almenningsvögnum, enda þótt við værum eins og sardínur í dós, svo þröngt var á okkur í bílnum. Farþegarnir í áætlunarbílunum á Íslandi eru mjög bílveikir vegna þess hve bílarnir verða að sveigja og beygja óaflátanlega kílómetra eftir kílómetra.

Við vorum mjög heppin með veður á leiðinni til Akureyrar. Ullarflókaský sigldu um heiðbláan himininn, og við hörmuðum, að ekki skyldi mega hafa með sér myndavélar. Stálgráir firðir skerast inn í landið á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, og teygja sig marga kílómetra inneftir. Milli fjallgarðanna lágu óteljandi dalir, hver um sig ótrúlega grænn og frjósamur. Við rætur fjallanna óx harðgert gras og í fjallshlíðunum og í dölunum sáum við kindur og alls staðar mátti sjá hestana. Þegar við nálguðumst ákvörðunarstað okkar fór að bera meira á þessum litlu hestum og fótvissum háfættum afkvæmum þeirra. Þeir voru tilfinninganæmari og fjörlegri en vinnuklárarnir á sunnanverðu landinu, og hlupu kringum bílinn okkar, þefuðu af honum, hristu makkann og spörkuðu aftur undan sér, eins og þeir væru að hæðast að hægfara för okkar. Ég var staðráðin í að fara með tvo hesta með mér aftur til Bandaríkjanna – jæja, kannski bara einn – þangað til ég komst að því, að það myndi kosta að minnsta kosti fjögur hundruð dollara og ef til vill líf hestsins líka.

Okkur til mikillar undrunar var sálarástand mannanna í herbúðunum á öllu þessu svæði mjög góð. Auðvitað höfðum við mikinn áhuga á að komast að orsökunum. Hvernig gat staðið á þessu, sérstaklega þegar tillit var tekið til þess, hve afskekktir margir þessara staða voru? Ef til vill var ástæðan sú, að vegna einangrunarinnar treystu liðsforingjar og óbreyttir hermenn meira hverjir á aðra til félagsskapar og skemmtunar, þar sem allir tóku sameiginlega þátt í skemmtuninni og nutu skemmtidagskráa okkar. Eða kannski var það vegna þess að hinir innfæddu voru vingjarnlegri við menn okkar. Hvar sem litlu fiskiþorpin voru ekki gjörsamlega yfirfull af hermönnum, tókum við eftir því, að fólkið var vingjarnlegt við bandarísku hermennina. Eins var og á Akureyri. Við hittum nokkra hermenn, sem við, höfðum þekkt í Reykjavík. Þeir sáu okkur, þar sem við vorum að ganga yfir aðalgötuna á Akureyri og kölluðu fagnandi til okkar, borgurunum til mikillar ánægju. Það mátti greinilega sjá gleði þeirra yfir að hafa verið fluttir til Akureyrar, því þeir töluðu allir í einu og um það sama: stúlkurnar væru vingjarnlegar, fólkið væri þeim vinsamlegt, og ó, það væri bara svo dásamlegt að vera hér.

Við vorum stórhrifnar af þessum litla bæ, sem lá eins og hálfmáni í botni eins fjarðarins. Það var áliðið dags, þegar við komum þangað. Þar að engin dagskrá hafði verið ákveðin fyrir þetta kvöld, gátum við gert það, sem við vildum sjálf, svo þegar við höfðum fundið herbergi á einkaheimili og komið okkur þar fyrir, fórum við öll að synda í sundlaug staðarins. Vatnið var volgt, já bara vel volgt, og gott að þvo af sér hraunrykið og gaf okkur góða matarlyst.

Til þess svo að seðja forvitni okkar lögðum við af stað gangandi um bæinn fimm í hóp. En ekki leið á löngu þar til við Cam vorum orðnar tvær eftir. Við stönzuðum á hafnarbakkanum og horfðum á norska vélvirkja önnum kafna að gera við eina af sjóflugvélum sínum. Þeir hættu sem snöggvast og litu á okkur og kinkuðu kolli og brostu, þegar við sögðum – Gott kvöld. Þar sem þeir höfðu ekki séð einkennisbúningana okkar áður, héldu þeir, að við værum íslenzkar. En þegar þeir heyrðu okkur tala við vörðinn, á tungumáli, sem ekki fór á milli mála, að var enska, komu þeir strax til okkar.

Tveir mannanna voru Norðmenn, en sá þriðji var fæddur í Bandaríkjunum. Mundum við vilja gera þeim þá ánægju að drekka með þeim kaffi í bragganum hérna á bryggjunni? Við þökkuðum fyrir og drukkum hvern bollann á fætur öðrum og borðuðum kynstrin öll af kökum með. – Borðið eins mikið og þið viljið, sögðu þeir hvetjandi. – Þetta er heimili okkar, það fyrsta, sem við höfum átt, síðan við komum til þessa guðsvolaða lands. Við fengum þessa byggingu, þegar Bretarnir fóru. Við höfðum verið að hreinsa til, lagfæra og mála herbergin. Svo bættu þeir við næstum afsakandi: — Við erum ekki búnir ennþá. Við erum nýfluttir inn, og það er margt eftir ógert.

Sá sem fæddur var í Bandaríkjunum, bölvaði þeim degi fyrir tveimur árum, þegar hann hafði komið til Íslands. Það virtist vera sama sagan með hann og alla aðra – hann vildi komast í bardaga. Eldri Norðmaðurinn, skeggjaður og vitur maður, var fús að heyja stríðið á annan hátt. – Við komumst af stað áður en langt líður, sannaðu bar til. Það gerist eitthvað, fyrr en varir. Hann brosti til okkar. Bandaríkjamaðurinn hélt áfram að endurtaka: – Við rotnum hérna lifandi, það er allt og sumt, bara rotnum. Ungi Norðmaðurinn sagði ekkert, en það mátti greinilega sjá af svip hans, að hann vildi gjarnan fá að heyra eitthvað annað, en þessa sömu gömlu rullu.

– Já, sögðu þeir, þegar þeir tóku eftir því, að við horfðum spyrjandi í átt til kvennanna, sem voru í herberginu. – Þær eru norskar flóttakonur, sem komust undan. Komust undan, voru varla réttu orðin, en þó fór það allt eftir því, hvernig á málin var litið. Ef til vill var þetta undankoma fyrir laglegu konuna, sem stóð við borðið, og hafði sloppið frá hörmungunum með ekkert annað en lífsneistann í brjósti sér og fötin sem hún stóð í. Ég hefði þó varla getað talað um undankomu hjá ungu stúlkunni, sem bar okkur kaffið og kökurnar. Þegar hún var kynnt fyrir okkur, brosti hún og heilsaði kurteislega á ensku. En bros hennar kom undarlega fyrir sjónir, og orðin voru eins og úr öðrum heimi. Það mátti greinilega sjá merki ótta, skelfingar og haturs undanfarinna mánaða og ára á andliti hennar, alls þess, sem ein manneskja getur þolað án þess að deyja.

Nei, hugsaði ég með mér, hún hafði ekki komizt undan neinu. Hún hafði ekki losnað við að sjá eyðileggingu heimilis síns, og þegar allt þetta gerðist, hafði eitthvað innra með henni byrjað að visna og deyja... Hún hafði ekki getað komizt undan því að sjá stöðugt fyrir sér, þegar gamall faðir hennar var skotinn. Hún hafði heldur ekki gleymt því, þegar systur hennar var nauðgað, né dauða bræðra hennar beggja, þegar þeir höfðu verið gripnir í miðju skemmdarverki. Smátt og smátt hafði eitthvað dáið innra með henni – ég var viss um það. Það var ekkert að sleppa við líkamlegan dauða í samanburði við að verða að deyja innra með sér á þennan hátt. En þrátt fyrir allt þetta, mátti sjá, að hinn ósýnilegi kraftur, sem rekur alla Norðmenn í átt að takmarkinu, sama við hvaða ofurefli þeir eiga að etja, brann ennþá í brjósti hennar.

Á meðan Bandaríkjamaðurinn var að kvarta sem mest, gekk maður inn í herbergið og kinkaði kolli, og sagði: – Það er kominn tími til þess að snúa sér aftur að sjóflugvélinni... Klukkan var orðin tólf, og enn var nógu bjart til þess að við gætum horft yfir bæinn, áður en við fórum að sofa.“

Heimildir:
Goodell, J. (1943). They sent me to Iceland. Ives Washburn Inc.

Send til Íslands (1965). Tíminn. 196., 197., 198. tbl.

Jane Goodell spilar á saxófón með hljómsveit ameríska setuliðsins á Íslandi. Myndin er úr bókinni They sent me to Iceland.

Þrjár starfskonur ameríska Rauða krossins með bandarískum setuliðsmönnum á Íslandi árið 1942. Jane Goodell stendur við píanóið með opinn munninn, þá Elizabeth W. Clark og við píanóið situr Mary Dolliver. https://www.pinterest.com