Fara í efni
Sagnalist

„Ég býð ykkur velkomin í skólann“

Pétur Finnbogason skólastjóri. Hann lést á Kristneshæli aðeins 29 ára að aldri.

Árið 1908 tóku íbúar Glæsibæjarhrepps sig saman og reistu skólahúsnæði á eigin kostnað í Glerárþorpi, n.t.t. í Sandgerðisbót. Líkast til hafa fræðslulögin árið 1907 haft eitthvað með þessa stóru ákvörðun að gera. „Skólinn í Sandgerðisbót“ eins og hann var ávallt kallaður er fyrsta byggingin sem hýsir barnaskóla í Þorpinu. Farkennsla hafði tíðkast í hreppnum áður en skólinn tók til starfa. Þrátt fyrir „fastan“ skóla með tilkomu nýju skólabyggingarinnar hélt farkennsla áfram í einhverri mynd næstu árin.

Fyrstu tveir kennarar skólans voru þau Halldór Friðjónsson frá Sandi og Ingibjörg Jóhannesdóttir frá Árnesi. Kennt var í skólanum fram að jólum 1937 fyrir utan árin 1916-1919 á meðan á framkvæmdum stóð í húsinu. Eftir gagngera yfirhalningu árið 1920 var Jóhann Scheving frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal ráðinn kennari við skólann. Hann átti eftir að kenna í Sandgerðisbót þar til skellt var í lás þar og nýr skóli reistur. Í nýja skólanum starfaði hann í tólf ár. Samtals kenndi hann því í 29 ár við tvo barnaskóla í Glerárþorpi.

Börnum í Þorpinu fjölgaði á millistríðsárunum. Fleiri nemendur og ófullnægjandi húsnæði í Bótinni kallaði á byggingu nýs skólahúss. Aftur má leiða líkum að því að lög um fræðslu barna, nú árið 1936, hafi ýtt undir byggingu Glerárskóla árið eftir. Þegar þarna var komið sögu stóðu Þorsteinn Hörgdal og aðrir skólanefndarmenn í ströngu. Auk byggingar nýs skólahúsnæðis var jafnframt ákveðið að framkvæmdin skyldi marka endalok gamla farskólakerfisins í sveitarfélaginu. Vinna við byggingu nýja skólans hófst haustið 1937 á svokölluðum Melgerðisási. Ekki liðu nema örfáir mánuðir áður en Glerárskóli tók til starfa, í janúarbyrjun 1938.

Sagnalist hefur undir höndum dagbók ungs manns sem var ráðinn skólastjóri hins nýja Glerárskóla. Á skólasetningardegi haustið 1937 skráir hann vangaveltur sínar í dagbókina sem og ræðu sem hann hélt að því tilefni fyrir skólabörn og foreldra. Dagbókarfærslan er um margt afar merkileg heimild. Ekki aðeins geymir hún innstu hugsanir skólastjórans unga síðasta skólasetningardaginn í Sandgerðisbót heldur og tilfinningar sem bærast um innra með honum hið fyrsta sinni er nýr skóli er settur og dagana í kjölfarið. Skólasetningarræðan er þannig tímamótaræða; sú fyrsta í sögu Glerárskóla, skrifuð og flutt af fyrsta skólastjóra skólans. Þankabrot hans um kosti og galla skólabygginganna tveggja og heilræði til nemenda og foreldra í Glerárþorpi hafa legið óhreyfð í geymslu í rúm 80 ár. Sagnalist skráir nú þessa einstöku heimild og miðlar til áhugasamra lesenda.

Pétur Finnbogason var fæddur árið 1910. Eftir nám í Menntaskólanum á Akureyri í upphafi fjórða áratugarins fór hann í Kennaraskólann þaðan sem hann lauk prófi vorið 1936. Pétur kenndi á Dalvík veturinn 1936-37 áður en hann var valinn úr hópi tíu umsækjenda til að gegna stöðu skólastjóra Glerárskóla. Rúmum fimm árum eftir að hann hætti námi í MA (vorið 1932) kom hann sér fyrir í Hamarstíg og hóf að undirbúa skólaárið 1937-38. Auk dagbókar Péturs verður hér stuðst við sendibréf sem hann sendi á umræddu tímabili og vitnað er í, í ævisögu hans sem kom út árið 1988.

21. okt. Fimmtudagur.

Í dag er éljaveður og alhvítt. Í dag setti ég skólann. Í fyrsta sinn á ævinni er ég löglegur skólastjóri í barnaskóla með 2 kennurum og ca. 70 börnum. Ég er ókunnur maður og ég finn að fólkið í þorpinu spyr sjálft sig. Hvers megum við vænta af þessum nýja manni? Flestir voru mættir þegar ég kom kl. 2 e.h. að gamla skólahúsinu í „Bótinni“. Þetta er skólasetningarræðan:

Barnaskólinn í Glerárþorpi er settur að þessu sinni – Ég býð ykkur – börnin sem eigið að vera í skólanum – ég býð ykkur velkomin í skólann. Þið fáu gestir sem hér eru staddir býð ég einnig velkomna og síðast en ekki síst býð ég gamla kennarann ykkar Jóhann Scheving velkominn til samstarfsins í vetur.

Ykkur er öllum kunnugt að nú eru miklar breytingar í vændum um skólamál hér í þorpinu. Nýtt og vandað skólahús er í smíðum hér uppi á brekkunni við ána og því miðar áfram dag frá degi og innan stundar verður það fullbúið og tekið til afnota. En á meðan það er ekki hægt verður kennt hér í gamla skólanum. Líka verður nú sú breyting á að í vetur verðum við 2 kennarar í stað eins sem var áður. Það hefur orðið að samkomulagi milli okkar kennaranna og skólanefndarinnar að á meðan nýji skólinn getur ekki tekið til starfa að þá verði kennt hér elstu deildunum tveim en þeirri yngstu sleppt. Nú er ekki nema ein kennslustofa til hér. Þess vegna getum við ekki kennt báðir samtímis.

Fyrirkomulagið verður því þetta: Elstu börnin 12 og 13 ára koma í skólann kl. 9. og verða í honum til kl. 1. en hin deildin 10 og 11 ára kemur kl. 1. og verður í skólanum til 5. – Öðruvísi er ekki hægt að hafa það fyrst um sinn. Æskilegast hefði auðvitað verið að hægt hefði verið að byrja í nýja húsinu með öllum deildum strax.

Nú á eftir verða ykkur afhentar námsbækur. Bækurnar, sem þið eigið læra í í vetur. Upphaflega var ætlast til þess að það yrði hægt að láta ykkur fá þær allar, en þær voru ekki allar til, en þær koma væntanlega seinna í vetur. Þess vegna bað ég ykkur um að koma með þær bækur, sem þið ættuð og að þær myndu þá fylla í skörðin eftir því, sem hægt væri fyrst um sinn. Nú munu foreldrar og aðstandendur barnanna segja: Það er tekinn af okkur skattur fyrir námsbækur og þess vegna eigum við heimtingu á að fá allar bækurnar. Þetta er auðvitað rétt. En þegar bækurnar eru ekki til þá er erfitt um afgreiðslu. Þess vegna hafa kennarar skorað á sambandsstjórn sína að hún færi þess á leit við útgáfustjórn námsbókanna að þau börn, sem að einhverju leyti geta lagt fram námsbækur fengu verð fyrir þær, sem gengi svo aftur upp í námsbókagjaldið, sem tekið er af foreldrunum. Þetta er aðeins tillaga, en ég tel mjög líklegt að hún nái samþykki.

Fyrsta byggingin sem hýsti barnaskóla í Þorpinu - hann var ávallt kallaður „Skólinn í Sandgerðisbót“.

 

Þá varð það eitt enn sem ég vildi mega ræða við ykkur. Undanfarið hefur það víða verið venja að hvert barn greiddi eina krónu í lesbókasjóð. Hreppurinn eða sveitarfélagið hefur svo greitt aðra á móti. Á þann hátt hefur fengist dálítil fjárupphæð, sem varið hefur verið til þess að kaupa lesbækur handa börnunum – þetta er góð venja og kostar heldur lítið, hún kostar vilja og skilning á þessu máli og eina krónu. Mér er ekki vel kunnugt um hverjum vinsældum þetta mál hefur að undanförnu átt að fagna hér í þorpinu. En ég vona að menn skilji þýðingu og nauðsyn góðs lesbókasafns í skóla.

Með ríkisútgáfu námsbóka er í raun […] þessi krafa fallin úr höndum kennaranna og þið getið sagt, ríkið á að skaffa lesbækur eins og aðrar námsbækur. Mikið rétt, en þær lesbækur verða aldrei nógar og 1. kr. er ekki hár skattur – og hugsið ykkur vel um áður en þið neitið að greiða þennan skatt hvort margri krónunni er ekki ver varið, en til þess að styrkja lesbókasjóð barnanna ykkar. Til samanburðar má geta þess að á Ak. hefur lesbókagjaldið aldrei innheimtst eins vel og í ár. Þess vegna er það ósk mín og von að íbúar þessa þorps bregðist eins vel við með krónuna fyrir lesbækurnar.

Líklega er það mjög óvíða sem verður jafn mikil breyting í barnaskóla í einni svipan og hér verður. Þetta gamla skólahús kann að hafa þótt sæmilegt á sinni tíð á meðan fólkið var fátt og farskólafyrirkomulagið hið eina skólafyrirkomulag sem þá þekktist í sveitunum utan heimafræðslunnar. En með fjölgun fólksins, breyttum þjóðarháttum, nýju viðhorfi í skólamálum og niðurfærslu skólaskyldualdurs hefur það orðið á eftir tímanum og nú rís upp nýtt og betra hús í stað þess. Hin fornu og þröngu húsakynni hverfa og bætt aðstaða kennaranna við kennsluna skapar meiri möguleika til betri og hagnýtari árangurs við skólanám barnanna. Þetta orsakar aftur eðlilega að aðstandendur þeirra gera meiri kröfur til skólans – að hann verði þess umkominn að gera skyldu sína gagnvart börnunum – að hann sé og verði fær um að veita þeim haldgóða og hagnýta fræðslu, sem komi þeim að sem bestum og mestum notum í lífinu. Þetta vill skólinn gera og kennararnir eiga enga ósk heitari en þá að það megi vel takast.

Ég veit það og finn það að þið bíðið full eftirvæntingar og spyrjið: Hvers megum við vænta? Þetta er ekki nema sjálfsögð spurning og ég svara henni eins hreinskilninslega og mér er unnt. – Mér eru vel ljósar þær skyldur, sem hvíla á herðum kennarans og allt frá því að ég valdi mér þett starf að æfistarfi hefi ég ætlað að helga því alla mína starfskrafta og rækja það svo vel, sem mér er framast unnt. Ég veit að þetta er hugsun allra kennara og til þess að kennararnir geti unnið starf sitt sem best er aðeins ein leið og hún er ekki nema ein. – sú að heimilin og skólinn starfi saman. Að foreldrar og aðrir aðstandendur barnanna hafi skilning á starfi kennaranna og að kennararnir hafi sjálfir vilja og getu til þess að mæta þeim á miðri leið og leiðbeina þeim í orði og verki. Þetta er mikið nauðsynjamál og framhjá því verður ekki gengið.

Börnin eru dýrmætustu eign foreldranna og oft þeirra eina eign. Þess vegna ber foreldrum og kennurum skylda til þess að varðveita þennan fjársjóð sameiginlega. – og þið sem eigið að vera í skólanum í vetur, til ykkar vil ég að lokum snúa máli mínu. Til hvers komið þið í skólann? Við komum til þess að læra, segið þið – jú það er rétt. En hvers vegna eruð þið látin læra í skólanum? Er það aðeins til þess að kennurunum þyki vænt um ykkur? Eða er það aðeins vegna þess að það er gaman að geta sýnt prófseðilinn sinn með háum tölum? Nei það er ekki vegna þess. Það er vegna þess – takið þið nú vel eftir – það er vegna þess að pabbi ykkar og mamma leggja svo oft mikið á sig til þess að þið getið verið í skólanum – það er vegna þess að þau vilja að þið getið orðið duglegt og gott fólk þegar þið eruð orðin stór. Hugsið þið nú vel um. Hver er það sem vekur ykkur á morgnana áður en þið farið í skólann? Er það ekki mamma ykkar eða frænka og hver fær ykkur þurr og hrein föt og hver gefur ykkur að borða? Er að ekki hún líka? En til þess að fá allt þetta þarf peninga og hver er það sem vinnur fyrir þeim peningum? Er það ekki pabbi ykkar eða frændi? – Nú vil ég spyrja ykkur að einu. Eru það nú ofmikil laun fyrir allt þetta, sem pabbi og mamma gera fyrir ykkur – eru það ofmikil laun að vera dugleg og góð börn í skólanum? Ég veit að ykkur langar öll til þess að verða stór – það vilja öll börn – og þegar þið eruð orðin stór þá viljið þið gera margt og mikið og eftir því, sem þið verðið duglegri í skólanum – því meira getið þið hjálpað pabba og mömmu þegar þið eruð orðin stór. Þess vegna eruð þið látin ganga í skóla og kennararnir eru mennirnir, sem ætla að hjálpa ykkur til þess að læra. Og eitt enn. Þegar þið leikið ykkur þá er það oftast einn eða fleiri sem stjórna leiknum. Af hverju er það? Það er vegna þess að ef enginn stjórnar, þá yrði ekkert gaman að leiknum – það yrði enginn leikur. Á sama hátt er það að ef enginn stjórnar í skólanum þá gengur illa að læra – en kennararnir eru mennirnir sem eiga að stjórna í skólanum.

Ég ætla ekki að lesa upp fyrir ykkur þær reglur sem þið eigið að fara eftir. Þeim fáið þið að kynnast smátt og smátt. En þær reglur, sem ég set, þeim verðið þið að hlýða – ekki aðeins vegna þess að ég vilji það, heldur vegna þess að það er best fyrir ykkur sjálf.

Ég býð ykkur aftur velkomin í skólann.

Eftir þessa ræðu tók Jóhann Scheving til máls og flutti langt erindi en því miður átti fátt af því erindi til barnanna – var það sem mest sjálfhælni og grobb – kryddað með stóryrðum sem kennara er vart sæmandi. Síðan var námsbókum útbýtt. Nokkrar gamlar konur höfðu komið með börnin sín. „Skólastjóri“ sögðu þær þegar þær ávörpuðu mig. Það var ekki laust við að ég kynni hálf illa við þetta ávarp. Svo endaði dagurinn. Hann verður mér minnisstæður. Ég finn þunga þessa starfs og ég þrái heitt að geta leyst það vel af hendi.

22. okt. Föstudagur.

Þetta er fyrsti reglulegi kennsludagurinn. Mér var forvitni á að vita hvernig börnin voru. Ég held þau séu góð. Minnsta kosti er ólíkt auðveldara að stjórna þeim en sumum börnum í R. vík.

23. okt. Laugardagur.

En þá er hríð – hríð – allt er þakið fönn. Fyrir fáum dögum angaði jörðin af bliknuðum gróðri hallandi sumars – Akureyri var í haustklæðum, en nú er allt hulið snjó. Frá Hamarsstíg 8 og að barnaskólanum í „Bótinni“ er 25. mín. gangur. Ég hefi keypt mér þykka ullarpeysu og hlýja vetrarhúfu. Ég geng á klossum, ég er ánægður með lífið. Tíminn líður hægt og seint, ég er einn – einn. Það er líka kannski best.

24. okt. Sunnudagur.

Stór hríð á norðan. Ég er heima í allan dag. Ég talaði við Helga bróður minn. Hann er í Reykjaskóla. Ég á bréf á leiðinni frá mömmu. Hann sagði mér að Leifur væri kennari á Skógarströnd. Ég skrifaði honum í dag.

Ég er mikið einn. Það er kanske gott á ýmsan hátt, ég er ennþá ekkert farinn að sinna ritstörfum en má nú til með að drífa mig í það nú á næstunni.

25. okt. Mánudagur.

Ennþá er hríðar veður og norðan stormur. Veturinn heilsar fljótt og heldur kalt. Ég geng mína venjulegu leið í 25 mín. Mér þykir hún heldur löng þegar veðráttan er svona, en annars er þetta góð og holl hreyfing.

Mér líkar vel við börnin. Ég hélt þau mikið verri en þau eru. Það er mikill munur þeim eða sumum bekkjum, sem ég fékk í forfallakennslunni í R. vík. Jóhann verður með hverjum degi leiðinlegri og aðsópsmeiri. Best verður að […] hann með þögn og lítilsvirðingu. Nú fyrst finn ég hina þungu skyldu kennarans. Það reynist heldur haldrýrt og ná skammt þær góðu og vel hugsuðu leiðbeiningar Kennaraskólans þegar út í sjálft lífið kemur. Þá verður hver og einn að bjarga sér sem best hann getur og þreifa sig áfram og læra af reynslunni. Hún verður besti kennarinn.

26. okt. Þriðjudagur.

Ennþá er snjókoma – en veður er hlýrra en undanfarna daga. Í dag fékk ég bréf frá mömmu. Það er skrifað heima 21. okt. Helgi er þá að fara og Leifur fer 29. þ.m. Ég fékk líka bréf frá […]. Það er skrifað 29. ág. og hefur verið að leita að mér í allt sumar. Það er gaman að fá þessi bréf. Ég átti langt tal við Þorstein Hörgdal í dag. Mjög hefur kennsla Jóhanns verið ábótavant í ýmsum atriðum. Hann hefur aldrei leikið sér með krökkunum og litla stjórn haft á þeim. Ég vildi að ég mætti bera gæfu til þess að verða þeim betri.

---

Um gang framkvæmdanna við Glerárskóla segir Pétur í bréfi til Teits bróður hans, dagsett 17. nóvember.

Það gengur hálfilla að koma þessum skóla upp. Frost og snjóar komu um daginn, þegar allt stóð sem verst, en nú miðar verkinu áfram og í fyrradag var fyrst lagður eldur í miðstöðina, en það er margt eftir enn, m.a. er ekki farið að smíða kennaraborðin, því þau höfðu nú gleymst! Þeir vilja allt spara svo til vandræða horfir. Ég hefi þó reynt, eftir því sem hægt var, að koma því nauðsynlegasta í lag, en ég hefði þurft að koma fyrr, því að húsið er talsvert gallað, en það er byggt eftir teikningu frá húsameistara ríkisins, en hann hefur aldrei á staðinn komið, og er fyrirkomulag hússins ekki hagkvæmt. Þetta hefði mátt auðveldlega laga, hefði það verið gert í tíma. En við því er ekkert að segja. Skólinn verður of lítill eftir 2-3 ár. Á meðan nýja húsið er í smíðum, kennum við í gamla húsinu, og er það engin fyrirmyndarbygging. Við vonum að nýja húsið verði fullbúið í desember eða þá um áramót, og er það sennilegra.

Í bréfi til Sigfúsar Kristjánssonar sem dagsett er 18. desember, lýsir Pétur aðstæðum í Hamarstíg og á Akureyri.

Hér hefi ég allt á sama stað, fæði, húsnæði og þjónustu, bað og síma. Allt er þetta hið prýðilegasta en reyndar nokkuð dýrt (kr. 120 pr. mán.) en það er nú orðið mjög miklu dýrara að lifa hér á Akureyri en var fyrir eina tíð, og gat ég hvergi fengið ódýrara nema þá mun verra. Ég sit nú í fyrsta skipti við minn eigin bókaskáp ofan á mínu eigin skrifborði, og þú getur nærri, hvort ég er ekki skólastjóralegur (!) þegar þorpararnir eru að heimsækja mig og tala um krakkana sína við mig.

Glerárskóli var vígður 6. janúar 1938. Af því tilefni segir Pétur í ræðu sinni:

Þessi nýi skóli – þetta hús, sem þið eruð nú stödd í, er sá staður, sem börn ykkar sækja sína fyrstu fræðslu í, og hingað munu liggja spor næstu kynslóða. Nú vil ég spyrja ykkur íbúana í Glerárþorpi: Hvaða óskir ætlið þið að gefa þessum skóla? Það kann að vera, að sumum ykkar þyki ekki viturlega spurt. En ég vil þá leyfa mér að fullyrða, að starf skólans og árangur þess starfs sé einmitt háður þeim óskum, sem þið gefið skólanum.

Nokkru síðar talar Pétur um vígsluna í bréfi til Teits:

En það má heita, að allt sé nú komið í réttan og öruggan farveg og er nú ekki annars að gæta en ekki renni út úr honum aftur. Ég tel mig hafa náð góðum tökum á fólkinu og krökkunum, og þegar skólinn var vígður, gat ég ekki skorast undan því að halda þar ræðu, og mér er óhætt að segja, að ég hefi aldrei fengið jafnmikið þakklæti fyrir neitt, sem ég hefi sagt eða gert, eins og eftir þá tölu.

Úr bréfi til Teits, dagsett 24. febrúar:

Það er mánaðarfrí í dag og þess vegna er ég í venju fremur góðu skapi, því alltaf er gott að eiga frí! Það er þó allra best að fá gott veður á þeim dögum, og það er núna. Veður eins og sumar væri. Jörðin er auð og grasið grær í görðum og þó er febrúar.

En fljótt skipast veður í lofti. Pétur skrifar Teiti bréf tveimur mánuðum síðar, 23. apríl:

Annars er það af mér að segja, að ég hefi legið í rúminu síðan 8. apríl. Það er „broncitis“ sem að mér gengur, og ég hefi alltaf dálítinn hita, en annars líður mér vel. Læknirinn segir þetta ekki hættulegt og heldur, að ég geti farið að kenna aftur um næstu mánaðamót.

Annað átti eftir að koma á daginn. Heilsu Péturs hrakaði þegar leið á maímánuð. Honum tókst að ljúka skólaárinu rétt áður en læknir tjáði honum að hann væri með berkla í lungum. Pétur var lagður inn á Kristneshæli í Eyjafirði þann 7. júní. Glerárþorp og Glerárskóli koma þó áfram við sögu í skrifum Péturs. Hann hélt í vonina með að snúa aftur til starfa. Á meðan biðu mögulegir eftirmenn hans í röðum.

Úr bréfi til Valtýs Guðjónssonar, dagsett 23. júní:

Ég vil ekki missa þetta þorp fyrri en ég hefi komið einhverju sýnilegu umbótastarfi í framkvæmd.

Dagbókarfærsla 24. júlí:

Nokkrir regndropar falla á andlit mér. Svo stend ég upp og geng að Hælinu. Þar mæti ég Sig. Jóh., stúdent frá Vindheimum, og geng með honum þar til bíllinn fer kl. hálffimm. Hann vill gjarnan verða eftirmaður minn í Glerárþorpi. Svo er nú það.

Dagbókarfærsla 24. ágúst;

Axel Ben. kemur hingað, falast eftir því að verða minn eftirmaður í Glerárþorpi.

Dagbókarfærsla 30. ágúst:

Helgi Elíass. samþykkur því að Haraldur [Vilhjálmsson] verði settur í minn stað. Ég er mjög ánægður.

Þegar Glerárskóli var settur þann 9. október 1938, var ár liðið frá því að Pétur Finnbogason, þá nýráðinn skólastjóri, setti skólann í fyrsta skipti. Haraldur Vilhjálmsson hafði nú tekið við stjórnartaumunum af Pétri. Engu að síður var það Pétur sem setti skólann. Hann fékk bæjarleyfi hjá yfirlækni Kristneshælis til að vera viðstaddur setninguna þar sem hann flutti klukkustundarræðu. Haraldur gegndi stöðu skólastjóra Glerárskóla til ársins 1946.

Pétri Finnbogasyni varð ekki að ósk sinni með að snúa aftur til starfa í Glerárþorpi. Hann lést á Kristneshæli 17. júlí 1939, 29 ára að aldri. Bræður hans, Teitur og Björn fóru á Kristneshæli á vörubíl og sóttu lík bróður síns. Á leið þeirra út úr bænum komu þeir við hjá Glerárskóla. Þar fór fram minningarathöfn þar sem fjöldi nemenda, foreldra og vina kom saman til að kveðja skólastjórann hinstu kveðju. Að athöfn lokinni óku þeir um holt og hæðir þar til komið var á bernskuslóðirnar í Hítardal í Mýrasýslu. Þar hvílir Pétur Finnbogason í heimagrafreit.

Heimildir:
Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára. (1988, 24. mars). Dagur, bls. 7-8.
Gunnar Finnbogason. (1988). Í Hítardal og Kristnesi – Ævisaga Péturs Finnbogasonar. Bókaútgáfan Valfell hf.
Myndir eru fengnar úr ævisögu Péturs, af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1687473 og í eigu höfundar.

 

  • Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist. Þetta er þriðja grein Brynjars Karls.

FYRSTA GREIN - Þú mátt ekki gráta, það sem svo gaman hérna!

ÖNNUR GREIN - Rithöfundurinn og hótelstýran  

Nýja skólahúsið - Glerárskóli, sem byggður var á Melgerðisási. Skólinn, sem er steinsnar frá Glerárskóla hinum nýja, tók til starfa, í janúarbyrjun 1938.