Fara í efni
Sagnalist

Sagnalist: Glerárfoss fyrirmynd að frægu atriði

  • Brynjar Karl Óttarsson, kennari og rithöfundur, skrifar margskonar áhugaverðar greinar og birtir á vef sínum, Sagnalist. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti reglulega efni af Sagnalist. Þetta er áttunda grein Brynjars Karls.

_ _ _

Í nýjasta hlaðvarpsþætti í þáttaröðinni Sagnalist með Adda og Binna ræða þeir félagar Arnar Birgir og Brynjar Karl um leikritaskáldið Jóhann Sigurjónsson og tengsl hans við Akureyri. Þekktasta leikverk skáldsins er án efa Fjalla-Eyvindur – leikrit í fjórum þáttum sem hann gaf út árið 1911. Leikritið vakti strax mikla athygli og var sett á fjalirnar víða um heim á næstu árum og áratugum. Nafn skáldsins var á allra vörum og stjarna Jóhanns skein skært. Ekki dró úr vinsældum þeirra Jóhanns, Fjalla-Eyvindar og Höllu nokkrum árum seinna þegar sænski leikstjórinn Victor Sjöström gerði kvikmynd eftir leikritinu og lék sjálfur aðalhlutverkið. Kvikmyndin Berg-Ejvind och hans hustru er flokki tímamótaverka í kvikmyndasögunni.

Í þættinum Upp til fjalla um sumarbjarta nótt rekja Arnar og Brynjar hvernig Jóhann háttaði undirbúningi sínum fyrir leikritaskrifin sumarið 1908 á meðan hann bjó hjá foreldrum sínum á Akureyri. Þeir félagar feta í fótspor skáldsins á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit þar sem hugmyndir kviknuðu hjá skáldinu sem svo áttu eftir að rata í leikritið um Fjalla-Eyvind og Höllu.

Eitt eftirminnilega atriði leikritsins er þegar Halla syngur Tótu, þriggja ára stúlkubarn þeirra skötuhjúa, í svefn. Um það leyti sem leitarflokkur nálgast útilegufólkið á hálendinu, kastar Halla barninu í foss frekar en að missa það í hendur yfirvalda. Ljóðið sem Halla syngur fyrir Tótu er hin kunna vögguvísa „Sofðu unga ástin mín.“ Atriðið í kvikmynd Sjöström er ekki síður eftirminnilegt þar sem finnska leikkonan Edith Erastoff er í hlutverki Höllu.

Á meðan Jóhann dvaldist á Akureyri sumarið 1908, fór hann reglulega í gönguferðir að á sem rann utan við bæinn. Þar kom hann auga á foss sem átti eftir að reynast örlagaríkur við leikritagerðina. Gönguferðir skáldsins að fossinum í Glerá þetta sumar urðu fjölmargar en tilgangur þeirra var öðru fremur að fá innblástur að fossaatriðinu í Fjalla-Eyvindi. Jóhann hafði fastmótaða hugmynd um hvernig atriðið ætti að líta út á sviði. Í því sambandi sá hann fyrir sér dæmigerðan íslenskan smáfoss eins og þann sem hann vitjaði reglulega í Glerá.

Glerárfoss er þannig fyrirmynd að frægu fossatriði í sígildu leikriti og kvikmynd sem fóru sigurför um heiminn á fyrri hluta 20. aldar.

Hægt er að hlusta á þáttinn - Upp til fjalla um sumarbjarta nótt - á Spotify-síðu Sagnalistar með því að smella á slóðina hér að neðan.

https://open.spotify.com/episode/4lvPBoLyDuUQTOzweyJdDz?si=0e9206155e9040b7