Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Bolludagur og öskudagur

Saga úr Innbænum - I

Mamma hans vakti hann blíðlega og sagði: Þú þarft að vakna núna elsku drengurinn minn ef þú ætlar að bolla einhvern. Hann glaðvaknaði. Það var kominn Bolludagur. Hann klæddi sig í skyndingu. Þau systkinin höfðu föndrað með gömul rakettuprik og krep-pappír kvöldið áður og búið til litríka bolluvendi.

Hann læddist að herbergi langömmu sinnar. Það var rifa á hurðinni og hann gægðist inn. Þarna svaf hún. Hann heyrði háar hrotur frá rúminu. Hann læddist á tánum inn í dimmt hornið og bankaði varlega með bolluvendinum ofan á þykka dúnsængina. Ekkert gerðist í myrkrinu. Reglulegar hrotur héldu áfram að berast undan sænginni. Hann varð hálfsmeykur. Hann var ekki vanur að vera inni í stofu langömmu þegar hún svaf. Hvernig gat hún hrotið svona hátt sú langa? Á náttborðinu var glas fyllt með vatni og ofan í því voru tennurnar hennar og glottu til hans í myrkrinu. Hann herti upp hugann og bankaði harkalega á sængina svo nokkrir skrautstrimlar úr bolluvendinum feyktust um gríðarstóra sængina sem honum fannst líkust Skjaldbreið. Hann hrópaði um leið: Bolla-bolla! Hroturnar hættu snögglega og langamma settist upp, stakk upp í sig tönnunum, setti þykk gleraugun á nefið og bauð góðan dag. Issipússi, hvaða gauragangur er þetta, sagði hún. Já þarna ertu vinur minn, já það er víst kominn bolludagur. Svo fór hún með hann fram í eldhús og opnaði ísskápinn. Sæktu nú Ingu og Jóhann og gjörið þið svo vel að fá ykkur bollur sagði hún og setti stóran bakka með ótal bollum á eldhúsborðið. Þarna voru rjómabollur með bleiku og brúnu kremi, sykurhúðaðar brúnar berlínarbollur með kremi innan í og kjarna úr sultu. Svo hafði mamma líka bakað vatnsdeigsbollur. Þvílík veisla hugsaði hann og naut þess að troða í sig bollu eftir bollu þar til hann stóð á blístri.

Hann þurfti líka að vakna svona snemma á öskudaginn. Hann hentist fram úr rúminu þegar gamla vekjaraklukkan sem hann hafði fengið lánaða hjá pabba sínum hringdi. Það var enn kolniðamyrkur. Hann átti að mæta klukkan sex niðri við Tunnuverksmiðju. Þar átti að slá köttinn úr tunnunni. Hann klæddi sig í hlý föt og setti upp gylltu kórónuna. Því næst batt hann um sig rauða lindann og stakk sverðinu inn fyrir hann öðrum megin og hnífnum hinum megin. Mamma hans var vöknuð og hún teiknaði á hann yfirvaraskegg með augabrúnalitnum sínum. Svo hjálpaði hún honum í bláa skikkjuna sem hún hafði saumað á marglitar pappírsstjörnur kvöldið áður.

Þegar hann kom út á Aðalstrætið hitti hann krakka sem voru á sömu leið. Það var enn rokkið þegar þau komu að horninu á geymsluhúsinu á bak við verksmiðjuna. Þar hékk þegar stór tunna í þykkum kaðli sem festur var við handriðið efst á stiganum. Nú stilltu allir sér í röð og svo hófst atgangurinn, að slá köttinn úr tunninni. Stóru strákarnir byrjuðu og gengu fram hver á eftir öðrum og lömdu í tunnuna með stórum lurk. Tunnan kastaðist fram og til baka en brotnaði ekki. Þegar kom að honum, lamdi hann eins fast og hann gat. Höggið kom beint á gjörðina og það glumdi í og tunnan sveiflaðist til. Krafturinn af högginu kom til baka gegnum lurkinn og upp í lófa hans svo sveið í. Óli Baddi var næstur á eftir. Hann sló þungt og vellukkað högg. Hann var svo sterkur. Svo komu Siggi, Svenni, Brói, Halldór, Harrý, Jóhann, Maggi, Smári, Villi, Ómar, Bragi, Anna og Bjargey og margir fleiri, bæði börn og fullorðnir. Tunnan virtist ekkert skáldast. En svo kom einhver Tommarinn og sló þungt högg. Hann sá að neðri gjörðin losnaði og einn tunnustafurinn stóð út í loftið. Nú færi tunnan að gefa sig. Hann vonaði að það gerðist ekki alveg strax, því það var ekki alveg komið að honum aftur. Röðin þokaðist áfram og fleiri slógu. Annar stafur losnaði og datt á jörðina. Loks var komið að honum að slá á ný. Hann tók upp þungt prikið með báðum höndum og sveiflaði því hátt yfir höfuð sér og sló eins fast og hann gat. Höggið kom á tunnina neðarlega, þar sem tunnustafirnir voru orðnir lausir og gáfu eftir svo höggið geigaði og hann var næstum dottinn um koll í stóra drullupollinn sem alltaf var á malarplaninu. Þvílík vonbrigði. En Óli Baddi getur þetta, hugsaði hann og rétti honum prikið. Hann er sterkari en ég. Óli tók við bareflinu og hélt alveg í bláendann á því. Hann lét höggið koma á ská neðanfrá upp í tunnuna sem gaf eftir með látum. Efri gjörðin féll af og tunnustafirnir flugu í allar áttir. Botninn hafði ekki verið í en lokið brotnaði. Eftir hékk kaðallinn og neðst í honum hafði verið festur strigapoki sam hangið hafði inni í tunnunni allan tímann en birtist nú. Tunnukóngur ársins er Ólafur Björgvin Guðmundsson, hrópaði einhver og svo fékk Óli Baddi tréspjald í bandi um hálsinn. Það var skorið út sem skjöldur og á það höfðu verið fagurlega brenndir stafirnir: Tunnukóngur. Óli spígsporaði montinn um svæðið með verðlaunagripinn um hálsinn. Þá átti eftir að skera úr um hverjum hlotnaðist titillinn Kattarkóngur.

Hann velti því fyrir sér hvort köttur væri í pokanum því hann hafði heyrt áður að venjulega væri settur dauður köttur í pokann. Þegar hann reyndi að spyrjast fyrir um þetta fékk hann engin skýr svör en einhver hvíslaði að honum að þar væri dauður hrafn í þetta sinn. Hann fór aftur í röðina til að taka þátt í keppninni áfram. Þegar kom að honum var honum fengin þung og beitt sveðja sem vakti honum ótta. Hann hafði aldrei áður haldið á svona vopni en hann lét samt höggin ríða á kaðlinum rétt fyrir ofan hnútinn sem hélt pokanum. En bandið gaf litla viðspyrnu og höggið rispaði ekki einu sinni þykkan kaðalinn. Hann rétti sverðið að næsta manni og loks eftir margar umferðir tókst einhverjum að höggva kaðalinn í sundur og pokinn féll til jarðar. Sá sem afrekið vann fékk samskonar skjöld og Óli um hálsinn nema nú stóð skrifað á hann: Kattarkóngur.

Nú fóru krakkarnir í öskudagsliðinu hans að hópa sig saman og þau gengu svo út í bæ. Þetta var litríkur og ósamstæður flokkur. Jóhann var úlfur, Inga var Mjallhvít, Maggi var kúreki með kögur á ermunum og byssur í belti, Nonni var riddari og Óli Baddi var gömul kona í kápu með skinnkraga og veski. Sumir voru með skegg, aðrir vopnaðir og hann sjálfur konungur í skikkju.

Þau byrjuðu á að fara í gosdrykkjaverksmiðjuna Sana. Þar var tekið á móti þeim af glaðlegum mönnum sem stilltu sér upp og hlustuðu á þau syngja nokkur lög. Síðan var þeim boðið að drekka af gosinu. Hann var eins og flestir orðinn þyrstur eftir ævintýri morgunsins. Hann vissi að þau máttu ekki fara með flöskur með sér en hins vegar drekka að vild á staðnum. Hann byrjaði á að fá sér eina Mix sem var mjög svalandi. Þá drakk hann tvær Cream Soda sem var hans uppáhaldsdrykkur og það freyddi vel. Til öryggis hristi hann þó báðar flöskurnar áður en hann opnaði þær. Svo drakk hann eina Valash að lokum. Hann sá að sumir drukku miklu meira. Þau þökkuðu fyrir sig og fóru næst í konfektgerðina Lindu. Þar fengu þau, eftir að hafa sungið þrjú lög, stóran poka með konfektafgöngum og súkkulaðibitum sem þau stungu í hvítan léreftpoka sem þau skiptust á um að bera. Svo héldu þau í miðbæinn og gengu búð úr búð og sungu og söfnuðu sælgæti.

Oftast sungu þau vinsæl lög sem þeim þótti gaman að, en stundum fengu þau beiðni um að syngja ákveðin lög. Eitt lag sem þau voru oft beðin að syngja var gamalt og þau kunnu það ekki en ein búðarkonan sagði að það endaði svona: ...en lipur varstu og laginn að loka á Öskudaginn. Þetta þótti honum fyndinn lagatexti.

Það var komið langt fram yfir hádegi þegar þau lögðu af stað aftur inn í Innbæ. Á leiðinni sá hann marga með litla litríka öskupoka hangandi á bakinu. Meira að segja ein stelpan í öskudagsliðinu hans var komin með tvo poka á bakinu. Allt í einu hrópaði Inga: Það hefur einhver hengt poka á þig. Og það var rétt. Á aftanverðum olnboganum hékk lítill öskupoki gerður úr köflóttu rauðu efni. Honum fannst það svolítið gaman að einhver hafði hengt poka á hann. Þessi poki var samt miklu minni en gömlu öskupokarnir sem afi hafði sýnt honum. Þeir voru frá því amma og afi voru ung. Þeir voru stærri og flottari og útsaumaðir með skreytingum og nöfnum. Þegar þau komu heim helltu þau úr pokanum á eldhúsborðið og stelpurnar skiptu namminu á milli þeirra. Það var stór hrúga sem hver fékk í sinn hlut og allir fóru ánægðir heim.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Skipulag heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 09:30

Fjárveitingar í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 09:30

Stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 09:30

Ójöfnuður í geðheilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
26. október 2024 | kl. 09:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00