Menntamál
Þór/KA tapaði í gær og Tindastóll vann mótið
12.04.2025 kl. 13:20

Bríet Fjóla Bjarnadóttir, hvítklædd, í baráttu við leikmenn FHL í gærkvöldi. Hún skoraði eina mark Þórs/KA í leiknum. Mynd: Ármann Hinrik.
Þór/KA tapaði lokaleik sínum í kvennadeild Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu í gærkvöld gegn FHL. Lokatölur urðu 4:1 fyrir gestina austan af landi og Tindastóll frá Sauðárkróki vinnur því mótið á markamun.
FHL (Fjarðabyggð - Höttur - Leiknir) komst í 4:0 áður en Bríet Fjóla Bjarnadóttir minnkaði muninn á 74. mínútu. „Þrátt fyrir þunga sókn á lokakaflanum tókst ekki að bæta við öðru marki og niðurstaðan því 1-4 tap. Með sigri, jafntefli og jafnvel með tveggja marka tapi hefði Þór/KA unnið Kjarnafæðimótið, en munurinn var þrjú mörk. Þór/KA og Tindastóll enda bæði með sex stig, en Tindastóll með fimm mörk í plús og Þór/KA með fjögur í plús,“ segir á vef Þórs/KA.