Fara í efni
Knattspyrna

Nú þurfa SA-stelpur á stuðningi að halda!

Leikmenn Skautafélags Akureyrar fögnuðu að vonum innilega þegar Silvía Björgvinsdóttir gerði sigurmarkið í framlengingu í leik númer 2 í einvíginu við Fjölni. Hvað gerist í kvöld? Mynd: RH

Fjórði úrslitaleikurinn í einvígi Skautafélags Akureyrar (SA) og Fjölnis um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna fer fram í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19.30. Staðan er 2:1 fyrir Fjölni, þrjá leiki þarf til að tryggja sér titilinn þannig að nú er að duga eða drepast fyrir leikmenn SA. Liðið verður að vinna í kvöld til að tryggja sér oddaleik í einvíginu.

Akureyri.net hvetur að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið til að mæta í Skautahöllina og hvetja Stelpurnar okkar til dáða.

  • Úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil í íshokkí kvenna
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    SA - Fjölnir

Fjölnir vann stórsigur í fyrsta leiknum á heimavelli í Reykjavík, 5:0, SA sigraði þvínæst á Akureyri, 2:1 eftir framlengingu, og Fjölnir vann þriðja leikinn 4:1 á heimavelli sínum í Egilshöll.