Íshokkíeinvígi karla frestað um viku

Stjórn Íshokkísambands Íslands kom saman í gær vegna niðurstöðu dómstóls ÍSÍ sem akureyri.net fjallaði um í gær og ákvað að fresta úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla um viku og hefja úrslitakeppnina 5. apríl, en er jafnframt tilbúin að gera frekari tilfærslur ef þörf er á þar til umrætt dómmál verður leitt til lykta.
Fyrirhugað var að einvígi SA og SR hæfist með leik í Skautahöllinni á Akureyri laugardaginn 29. mars og áttu þá SA og SR að mætast, en með kæru Fjölnis og niðurstöðu dómstóls ÍSÍ, er fyrirhuguð tímalína í uppnámi, auk þess sem niðurstaðan myndi þýða að Fjölnir tæki sæti SR í úrslitaeinvíginu.
Áfrýja dómi og kæra aðra leiki
SR hefur viku frá síðastliðnum laugardegi til að áfrýja dómi dómstóls ÍSÍ til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, auk þess sem dómstóllinn þarf væntanlega tíma til að komast að niðurstöðu.
Stjórn íshokkídeildar SR hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem meðal annars er hnýtt í stjórn íshokkídeildar Fjölnis vegna kærunnar og annarra mála. Stjórn íshokkídeildar SR hefur að auki, með vísun í forsendur nýfallins dóms, ákveðið að kæra fjölmarga leiki Fjölnis á þeirri forsendu markvörður sem fékk leikheimild á sömu forsendum og hinn kærði markvörður SR á þessu tímabili hafi verið ólöglegur í fjölda leikja á undanförnum tímabilum. Að auki bendir stjórnin hjá SR á að Fjölnir hafi notað of ungan leikmann í tveimur leikjum gegn SFH í haust.
„SR hefur ákveðið að kæra viðkomandi leiki og fara fram á að Fjölni verði dæmdur 0-10 ósigur í þeim öllum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu SR.