Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Sjöundi sigurinn í röð og Þór er á toppnum

Kristján Páll Steinsson varði 16 skot í dag. Hér er Víkingurinn Halldór Ingi Jónasson í dauðafæri en Kristján varði frá honum. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sigruðu Víkinga 32:26 í Höllinni á Akureyri í dag í toppslag Grill66 deildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta. Þór tapaði fyrsta leiknum í haust en hefur síðan unnið sjö í röð og liðið er efst í deildinni með 14 stig eftir átta leiki, jafnmörg stig og Selfoss en Þór á leik til góða. Víkingur er í þriðja sæti með 12 stig að loknum níu leikjum.

Eina tapið til þessa var fyrir Víkingi í Reykjavík (32:31), og heimamenn mættu þannig stemmdir til leiks í dag að ljóst var frá byrjun að það slys mátti ekki endurtaka sig.

Víkingar gerðu fyrsta markið og það var í eina skiptið í leiknum sem þeir höfðu forystu. Þegar aðeins átta mínútur voru liðnar voru Þórsarar komnir með fimm marka forystu, 7:2, og eftir það varð ekki aftur snúið. Staðan í hálfleik var 17:12 og hið sama var upp á teningnum í seinni hálfleik, Þórsarar voru mun betri og Víkingar eygðu aldrei raunverulega von um að ná í stig. Þórsstrákarnir léku prýðilega að flestu leyti, bæði í sókn og vörn, og fögnuðu öruggum og afar mikilvægum sigri í toppbaráttunni.

Brynjar Hólm Grétarsson var valinn maður leiksins. Hann gerði níu mörk og lék vel í vörninni að vanda.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 9, Oddur Gretarsson 9, Hafþór Már Vignisson 4, Aron Hólm Kristjánsson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Garðar Már Jónsson 3.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 16 (38,1%)

Mörk Víkings: Ásgeir Snær Vignisson 8, Kristján Helgi Tómasson 6, Sigurður Páll Matthíasson 6, Stefán Scheving Guðmundsson 3, Igor Mrsulja 1, Halldór Ingi Jónasson 1, Þorfinnur Máni Björnsson 1.

Varin skot: Bjarki Garðarsson 5, Stefán Huldar Stefánsson 5, Daníel Andri Valtýsson 3.

Sjaldnast þarf að spyrja að leikslokum þegar Oddur Gretarsson er í þessari stöðu gegn markverði. Bjarki Garðarsson kom engum vörnum í þetta skipti og Oddur gerði eitt níu marka sinna í dag.

Öll tölfræði úr leiknum

Staðan í deildinni

Þórsstrákarnir fagna í Höllinni í dag eftir öruggan sigur á Víkingum.