Fara í efni
Karl Guðmundsson – Kalli

Stórkostlegur sigur á Íslandsmeisturunum

Amandine Toi og Maddie Sutton fögnuðu sigrinum innilega, eins og samherjar þeirra og áhorfendur sem héldu uppi magnaðri stemningu í stúkunni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann margfalda meistara Keflavíkur með 22ja stiga mun í 13. umferð Bónusdeildar kvenna í körfuknattleik í kvöld. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik voru meistararnir hreinlega kafsigldir í þeim seinni. Þórsstelpurnar sitja þar með einar í 2. sæti deildarinnar. Þetta var sjöundi sigur Þórsliðsins í röð í deildinni. 

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og skiptust liðin aðeins á forystunni. Gestirnir unnu báða leikhlutana með einu stigi. Amandine Toi var öflug í byrjun og skoraði 17 stig í fyrsta leikhlutanum, var komin með 21 stig eftir fyrri hálfleikinn. Á einum tímapunkti munaði minnstu að Þór næði átta stiga forystu eftir góða byrjun í 2. leikhluta, en Keflvíkingar náðu að jafna og höfðu tveggja stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Amandine Toi hafði sannarlega ástæðu til að gleðjast í kvöld. Hún var stórkostleg í leiknum og skoraði 37 stig.

Fljótlega í seinni hálfleiknum fóru Þórsstelpurnar að síga fram úr. Þegar leið á 3. leikhluta náði Þórsliðið góðum kafla og stemningin magnaðist í stúkunni, forystan orðin 12 stig áður en þjálfari Keflvíkinga bað um leikhlé, en að því loknu héldu Þórsstelpurnar áfram að auka forystuna, munurinn kominn í 19 stig þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum. Svipað var uppi á teningnum í lokafjórðungnum, Þórsliðið hélt áfram að keyra yfir gestina og kláraði leikinn að lokum með 22ja stiga mun.

Krampar á parketinu og kraftur úr stúkunni

Það segir kannski sína sögu um baráttugleðina þegar leikmenn skilja allt eftir á vellinum, eins og sagt er, og tvívegis þurftu leikmenn Þórs að koma út af eftir að hafa fengið krampa í fæturna. Allt lagt í leikinn. Það gerðu þeir 150-160 stuðningsmenn Þórsliðsins sem lögðu leið sína í Höllina einnig, stemningin frábær sem fyrr og stuðningur sem skiptir máli.

Amandine Toi var stórkostleg í kvöld, skoraði 37 stig þegar upp var staðið. Maddie Sutton fann körfuna betur í kvöld en í síðasta leik, skoraði 21 stig og tók 12 fráköst. Esther Fokke var frekar lengi í gang og hitti illa til að byrja með, en skoraði að lokum 16 stig og átti sjö stoðsendingar, eins og Maddie. 

Með sigrinum fóru Þórsstelpurnar upp fyrir Keflvíkinga og sitja einar í 2. sætinu með níu sigra í 13 leikjum. Haukar eru áfram á toppnum, hafa unnið 11 leiki. Næst á eftir Þór koma Keflavík, Tindastóll og Njarðvík sem öll hafa unnið átta leiki. 

Á Facebook-síðunni Stattnördarnir kemur fram að tap Keflvíkinga í kvöld hafi verið þeirra 200. tap í 840 leikjum í efstu deild. 

  • Gangur leiksins: Þór - Keflavík (27-28) (22-23) 49-51 (33-17) (27-19) 109-87 
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 37 - 2 - 3 - 35 framlagsstig
  • Maddie Sutton 21 - 12 - 7
  • Esther Fokke 16 - 6 - 7
  • Eva Wium 16 - 6 - 1
  • Natalia Lalic 11 - 1 - 3
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 5 - 9 - 3
  • Hrefna Ottósdóttir 3 - 2 - 0