Fara í efni
KA

SA í kjörstöðu eftir sigur í öðrum leik

Leikmenn SA fagna einu af sjö mörkum liðsins í sirginum á Akureyri á laugardag. Atli Sveinsson (43) skoraði þá eitt mark og átti eina stoðsendingu. Hann var hins vegar borinn meiddur af velli í leik kvöldsins, en akureyri.net hefur ekki frekari fregnir af meiðslum hans. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí stendur vel að vígi í einvígi liðsins gegn liði Skautafélags Reykjavíkur um Íslandsmeistaratitilinn eftir 3-1 sigur í Laugardalnum í kvöld. Akureyrarliðið hefur unnið tvo fyrstu leiki einvígisins og fær tækifæri til að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn eftir tveggja ára dvöl bikarsins fyrir sunnan. Þriðji leikur liðanna verður í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudagskvöld. 

SA náði forystunni eftir rúmlega fimm mínútna leik með marki Unnars Hafberg Rúnarssonar og stoðsendingar frá Róberti Hafberg og Ólafi Baldvini Björgvinssyni, en Alex Máni Sveinsson jafnaði um miðjan fyrsta leikhlutann eftir stoðsendingu frá Axel Orongan. Rúmum þremur mínútum síðar var sama þrenningin aftur á ferðinni fyrir SA, Róbert Hafberg skoraði og Unnar og Ólafur Baldvin áttu stoðsendingarnar. Áhugavert reyndar að þeir tveir sem komu að jöfnunarmarki SR koma báðir upphaflega úr röðum SA.

Allt stefndi í markalausan annan leikhluta og að helstu tíðindin yrðu þau að Atli Sveinsson var borinn meiddur af velli eftir samstuð og byltu.

Akureyringar hætta samt ekkert og á endanum skilaði það sér í marki þegar rúmar tvær sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Uni Blöndal skoraði þá eftir stoðsengingu Andra Sverrissonar og Jóhanns Más Leifssonar. SA því með tveggja marka forystu fyrir lokaþriðjunginn.

Baráttugleði og vel skipulagður varnarleikur skilaði svo sigrinum eftir markalausan þriðja leikhluta. SR-ingum varð lítt ágengt við mark SA þrátt fyrir að þeir tækju markvörð sinn út af á lokamínútunum til að auka sóknarþungann. 

  • SR - SA 1-3 (1-2, 0-1, 0-0)

  • 0-1 - Unnar Hafberg Rúnarsson (05:14). Stoðsendingar: Róbert Hafberg, Ólafur Baldvin Björgvinsson.
  • 1-1 - Alex Máni Sveinsson (10:01). Stoðsending: Axel Orongan.
  • 1-2 - Robert Hafberg (13:13). Stoðsending: Unnar Hafberg Rúnarsson, Ólafur Baldvin Björgvinsson.
    - - -
  • 1-3 - Uni Blöndal (39:58). Stoðsending: Andri Freyr Sverrisson, Jóhann Már Leifsson.
    - - -

SA vann fyrsta leikinn, fjöruga markaveislu, 7-4, og svo annan leikinn á útivelli í kvöld. Eftir tveggja ára fjarveru Íslandsbikarsins eiga Akureyringar því möguleika á að endurheimta titilinn á heimavelli í þriðja leik einvígisins, sem fram fer í Skautahöllinni á Akureyri á fimmtudag og hefst kl. 19:30. 

Leik dagsins var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og má horfa á hann í spilaranum hér að neðan.