Fara í efni
KA

Íshokkílandsliðið á möguleika á silfrinu

Brugðið á leik. A-landslið kvenna í íshókkí ásamt þjálfurum og öðru starfsfólki. Myndin er fengin af Facebook-síðu íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar.

Kvennalandslið Íslands í íshokkí spilar þessa dagana í 2. deild A á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Póllandi. Eftir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjunum kom fyrsti tapleikur liðsins gegn gestgjöfum Pólverja á fimmtudag, en svo þriðji sigurinn þegar íslenska liðið mætti liði Mexíkó í gær.

Í fyrsta leik liðsins á mótinu, gegn Spánverjum, var jafnt eftir venjulegan leiktíma, 2-2. Sunna Björgvinsdóttir og Berglind Leifsdóttir skoruðu mörk Íslands. Þær Teresa Snorradóttir, Friðrika Magnúsdóttir, Saga Blöndal og Ragnhildur Kjartansdóttir áttu stoðsendingarnar í leiknum. Ekkert var skorað í framlengingu, en íslenska liðið tryggði sér aukastigið með sigri í vítakeppni. Þar var Saga Blöndal sú eina sem skoraði. 

Leikmenn Skautafélags Akureyrar í A-landsliðinu. Aftari röð frá vinstri: Shawlee Gaudreault aðstoðarþjálfari, Silvía Rán Björgvinsdóttir, Eva María Karvelsdóttir og Magdalena Sulova. Fremri röð frá vinstri: Kolbrún Björnsdóttir, Amanda Ýr Bjarnadóttir og Anna Sonja Ágústsdóttir. Myndin er fengin af Facebook-síðu íshokkídeildar SA.

Á þriðjudag vann íslenska liðið landslið Norður-Kóreu, 3-1. Hilma Bóel Bergsdóttir, Berglind Leifsdóttir og Sunna Björgvinsdóttir skoruðu mörk Íslands. Sunna var valin maður leiksins eftir þann leik. Silvía Rán Björgvinsdóttir átti tvær stoðsendingar í leiknum og Kolbrún María Garðarsdóttir eina. 

Eftir tvo sigurleiki mætti íslenska liðið gestgjöfum Pólverja og mátti játa sig sigrað í miklum baráttuleik. Pólverjar skoruðu tvö mörk, en íslenska liðinu tókst ekki að skora.

Fjórði leikur liðsins var gegn Mexíkó í morgun og þar kom þriðji sigur liðsins í fjórum leikjum. Ísenska liðið komst í 5-0 eftir fyrstu tvo leikhlutana, en Mexíkó minnkaði muninn í þrjú mörk í þeim þriðja. Mörk Íslands gerðu þær Saga Blöndal, Friðrika Magnúsdóttir, Sunna Björgvinsdóttir, Laura-Ann Murphy og Ragnhildur Kjartansdóttir. Stoðsendingar áttu Sunna Björgvinsdóttir (2), Saga Blöndal, Kolbrún María Garðarsdóttir, Berglind Leifsdóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir.

Síðasti leikur íslenska liðsins á mótinu verður gegn Tævan í dag og hefst kl. 14:30 að íslenskum tíma. Öll úrslit, tölfræði, liðsskipan og stöðu í deildinni má finna á mótsvefnum á iihf.com. Mótshaldarar hafa birt skemmtilegt myndband af stemningunni í Bytom í Póllandi þar sem mótið er haldið.

Skjáskot úr myndbandi mótshaldara. Smellið á myndina til að skoða myndbandið á Instagram.

Fyrir lokaleikinn í dag er íslenska liðið í þriðja sæti með átta stig. Pólland er í efsta sætinu með 12 stig og Spánverjar næstir með tíu. Pólverjar og Spánverjar mætast í lokaumferðinni í dag og á íslenska liðið því góða möguleika á silfrinu, sem yrði raunin ef Ísland vinnur Tævan og Pólland vinnur Spán. Pólverjar hafa unnið alla leiki sína til þessa og eru með markatöluna 28-4. Lokaniðurstaðan kemur ekki í ljós fyrr en í kvöld því leikur Póllands og Spánar er á eftir leik Íslands og Tævan.

Auk þeirra sex leikmanna og fjögurra í þjálfarateymi/starfsliði landsliðsins eru tíu í hópnum sem koma upphaflega úr röðum SA, en leika nú með félögum í Reykjavík eða erlendis, eða samtals 16 af 22 leikmönnum í landsliðinu sem hófu íshokkíferilinn á Akureyri.

A-landslið kvenna í íshokkí. Myndin er fengin af Facebook-síðu íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar. Aftasta röð frá vinstri: Amanda Ýr Bjarnadóttir (SA), Friðrika Magnúsdóttir (SR), Laura-Ann Murphy (Fjölni), Eva Hlynsdóttir (Fjölni), Kolbrún María Garðarsdóttir (Fjölni), Magdalena Sulova (SA), Kolbrún Björnsdóttir (SA), Anna Sonja Ágústsdóttir (SA). Miðröð frá vinstri: Vera Sjöfn Ólafsdóttir kírópraktor, Brynja Vignisdóttir liðsstjóri, Katrín Björnsdóttir (Örebro HK), Saga Blöndal Sigurðardóttir (SR), Elísa Dís Sigfinnsdóttir (Fjölni), Eva María Karvelsdóttir (SA), Sigrún Agatha Árnadóttir (Fjölni), Gunnborg Petra Jóhannsdóttir (SR), Teresa Snorradóttir (Fjölni), Hilma Bóel Bergsdóttir (Fjölni), Ragnhildur Kjartansdóttir (SR), Shawlee Gaudreault markvarðaþjálfari, Hulda Sigurðardóttir tæknistjóri. Fremsta röð frá vinstri: Andrea Bachmann (SR), Silvía Rán Björgvinsdóttir (SA), Kim McCullough aðstoðarþjálfari, Sunna Björgvinsdóttir (Södertälje SK), Jón Benedikt Gíslason þjálfari, Berglind Leifsdóttir (Fjölni) og Birta Júlía Helgudóttir (Odense IK).